Innlent

Börn send heim vegna manneklu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fjórtán börn í leikskólanum Dalskóla þurfa að vera heima í dag.
Fjórtán börn í leikskólanum Dalskóla þurfa að vera heima í dag. vísir/vilhelm
Sjö börn á leikskólanum Dalskóla í Grafarholti í Reykjavík þurftu að vera heima í dag og sjö börn til viðbótar fara heim upp úr hádegi vegna veikinda starfsfólks. Sigrún Ásta Gunnlaugsdóttir leikskólastjóri í Dalskóla segir manneklu viðvarandi vandamál á flestum leikskólum.

„Það var fullmannað í haust og leit mjög vel út. Svo komu upp veikindi, langtímaveikindi, sem við verðum að bregðast við og í ofanálag er flensa í gangi þannig að við þurfum að biðja foreldra um að vera heima með börnin í dag,“ segir Sigrún.

Sigrún Ásta segir að á undanförnum tveimur vikum hafi ítrekað þurft að senda börn heim. Það sé afar miður, en að foreldrar sýni því þó skilning.

„Þetta er erfitt bæði fyrir foreldra og okkur og við viljum ekki þurfa að taka svona ákvarðanir. Þetta hefur verið að koma óvenju oft fyrir, ekki bara hjá okkur heldur er þetta ástand í gangi á mjög mörgum leikskólum.“

Sigrún segir að ekki sé í boði að kalla út aukamannskap og að þá gangi erfiðlega að ráða í stöður.  „En maður verður bara að vera bjartsýnn á að þetta leysist. Þetta er auðvitað mjög lýjandi fyrir alla.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×