Innlent

Segja meirihlutann hafa viðurkennt að skólakerfi borgarinnar sé „gróflega undirfjármagnað“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stórauka á fjárframlög til leik-og grunnskóla borgarinnar samkvæmt nýrri aðgerðaáætlun meirihlutans.
Stórauka á fjárframlög til leik-og grunnskóla borgarinnar samkvæmt nýrri aðgerðaáætlun meirihlutans. vísir/eyþór
Sjálfstæðisflokkurinn telur að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna í borgarstjórn hafi gert óraunhæfar hagræðingarkröfur til leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar. Þetta kemur fram í bókun sem flokkurinn lagði fram á fundi borgarráðs í dag þar sem aukin framlög til leik-og grunnskóla í borginni voru samþykkt. Framlögin hlaupa á hunduð milljónum króna og fara meðal annars í sérkennslu, skólaakstur og kaup á námsgögnum.

Í bókun Sjálfstæðisflokkum segir að með þessum auknu framlögum viðurkenni „meirihlutinn loks að skólakerfi borgarinnar er gróflega undirfjármagnað og ekki seinna vænna í ljósi þess að rúmlega tveir þriðju fjárhagsársins eru nú að baki. Mikill tvískinnungur felst í því að halda því fram að um ný framlög til skólamála sé að ræða í þessu sambandi því að langstærstum hluta er verið að viðurkenna þann hallarekstur, sem orðinn er að veruleika vegna óraunhæfrar fjárhagsáætlunar, og Reykjavíkurborg hefur ekki tök á að víkja sér undan, t.d. vegna sérkennslu, langtímaveikinda, skólaaksturs og skólamáltíða.“

Þannig hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bent á það við gerð fjárhagsáætlunar 2016 að ýmsar niðurskurðartillögur meirihlutans hafi verið óraunhæfar, og bent áfram á það á starfsárinu.

„Til dæmis myndi niðurskurður á fæðisgjaldi leikskóla og grunnskóla óhjákvæmilega bitna á gæðum skólamáltíða. Það hefur því miður gerst. Komið hefur í ljós að hluta af fæðisgjaldi leikskólanna er nú ráðstafað til annars en matarinnkaupa og segir formaður Félags leikskólakennara að þar með hafi botninum verið náð. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um málið frá kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum brást meirihlutinn ekki við þessari alvarlegu stöðu fyrr en málið hafði hlotið mikla og endurtekna umfjöllun í fjölmiðlum. Brýnt er að tryggja að hækkun á fæðisgjaldi nemenda skili sér að öllu leyti til hráefniskaupa og munu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins fylgjast með því.

Athygli vekur að meirihlutinn gerir ekki ráð fyrir neinum aðgerðum í því skyni að styrkja rekstur frístundaheimila Reykjavíkurborgar þrátt fyrir að niðurskurður hafi jafnvel verið hlutfallslega meiri þar á undanförnum árum en í leikskólum og grunnskólum,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins í borgarráði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×