Enski boltinn

Sögubækur Swansea bíða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi fagnar einu tíu marka sinna í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Gylfi fagnar einu tíu marka sinna í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta, hefur verið í miklum ham með liði sínu Swansea í ensku úrvalsdeildinni en það hefur varla farið fram hjá nokkrum knattspyrnuáhugamanni.

Gylfi er búinn að skora átta mörk eftir áramót og tíu í heildina. Hann er ein stærsta ástæða þess að liðið er að kveðja falldrauginn, en velska liðið er nú tíu stigum frá falli þegar sex umferðir eru eftir. Einn sigur í viðbót ætti að gulltryggja veru Swansea í ensku úrvalsdeildinni.

Svanirnir eiga fyrir höndum erfiðan leik um helgina gegn Chelsea, en það er eitt af tíu liðum sem Gylfi á eftir að skora á móti í vetur. Hann hefur nefnilega dreift mörkunum sínum tíu á tíu leiki og á móti tíu mismunandi liðum. Sigurmark eða mark í sigri um helgina yrði svo sannarlega sögulegt því í níu tilraunum í ensku úrvalsdeildinni hefur Swansea aldrei tekist að leggja Chelsea að velli. Lundúnaliðið, sem hefur ekki tapað í fimmtán leikjum undir stjórn Guus Hiddink í úrvalsdeildinni, hefur unnið sex af níu leikjum liðanna í deildinni og þrisvar sinnum hafa þau gert jafntefli.

Jafnar markametið

Mark frá Gylfa um helgina yrði einnig sögulegt fyrir Swansea því hann myndi með því jafna Wilfried Bony sem var markahæsti leikmaður liðsins í sögu þess í úrvalsdeildinni. Fílabeinsstrendingurinn Bony skoraði 25 mörk fyrir velska liðið áður en hann hélt til Manchester City.

Gylfi skoraði 24. markið sitt fyrir Swansea í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi þegar hann leiddi endurkomu þess í 2-2 jafntefli eftir að lenda 2-0 undir. Það þurfti ekki að koma neinum á óvart að Gylfi skoraði því hann er búinn að skora 47 prósent marka Swansea eftir áramót. Ótrúleg tölfræði fyrir miðjumann. Þriðji á markalistanum hjá Swansea er Spánverjinn Michu sem skoraði 20 mörk en hann er fortíð Swansea og Gylfi Þór nútíðin.

Markahæsti miðjumaðurinn

Gylfi Þór er búinn að vera svo iðinn við kolann eftir áramót að bara tveir af allra bestu framherjum deildarinnar, Harry Kane hjá Tottenham (11 mörk) og Sergio Agüero hjá Manchester City (10 mörk) eru búnir að skora meira en íslenski landsliðsmaðurinn eftir áramót. Aðrir stormsenterar á borð við Romelu Lukaku, Jamie Vardy og Odion Ighalo eru langt á eftir Gylfa.

Hafnfirðingurinn er í tíunda sæti yfir markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar og sá markahæsti af öllum miðjumönnum deildarinnar. Þó það megi flokka Marko Arnutovic (Stoke, 10 mörk) og Riyad Mahrez (Leicester, 16 mörk) sem miðjumenn er enginn af „pjúra“ miðjumönnum deildarinnar fyrir ofan Gylfa.

Fjögur í Eið Smára

Gylfi Þór getur enn jafnað eða bætt met Eiðs Smára Guðjohnsen yfir flest mörk Íslendings á einu tímabili í úrvalsdeildinni ensku. Eiður skoraði mest 14 mörk fyrir Chelsea 2001/2002. Gylfi þarf þá að skora fjögur eða fimm mörk í síðustu sex leikjunum. Miðað við hvernig hann er að spila er ekkert útilokað.

vísir/getty/grafík/fréttablaðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×