Fótbolti

Messi með tímamótamark í sigri Argentínu | Alves bjargaði stigi fyrir Brassa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Messi fagnar 50. marki sínu fyrir Argentínu.
Messi fagnar 50. marki sínu fyrir Argentínu. vísir/getty
Lionel Messi skoraði seinna mark Argentínu sem vann 2-0 sigur á Bólivíu í undankeppni HM 2018 í gær.

Þetta var 50. mark Messi fyrir argentínska landsliðið en hann vantar nú aðeins sex mörk til að jafna markamet Gabriels Batistuta.

Varnarmaðurinn Gabriel Mercado kom Argentínumönnum yfir á 20. mínútu og 10 mínútum síðar tvöfaldaði Messi forskotið með marki úr vítaspyrnu og þar við sat.

Argentína hefur nú unnið þrjá leiki í röð og er í 3. sæti Suður-Ameríkuriðilsins.

Dani Alves bjargaði stigi fyrir Brasilíu gegn Paragvæ á útivelli. Paragvæar komust í 2-0 í byrjun seinni hálfleiks og þannig var staðan allt fram á 79. mínútu þegar hinn 35 ára gamli Ricardo Oliviera minnkaði muninn í 2-1. Það var svo Alves sem jafnaði metin á annarri mínútu í uppbótartíma.

Brassar hafa aðeins unnið tvo leiki í undankeppninni og eru í 6. sæti riðilsins með níu stig.

Suður-Ameríkumeistarar Chile rúlluðu yfir Venesúela á útivelli, 1-4. Mauricio Pinilla og Arturo Vidal skoruðu tvö mörk hvor fyrir Chile sem er í 4. sæti riðilsins með 10 stig.

Þá tryggði Edinson Cavani Úrúgvæ 1-0 sigur á Perú og Ekvador tapaði sínum fyrsta leik í undankeppninni gegn Kólumbíu, 3-1. Úrúgvæ og Ekvador eru jöfn að stigum á toppi riðilsins en liðin hafa bæði krækt í 13 stig í sex leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×