Innlent

Enginn þingmaður undir 763 þúsundum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Úr þingsal
Úr þingsal Vísir
Þingkosningar fara fram 29. október næstkomandi. Alls eru 63 sæti á Alþingi og nú þegar er orðið ljóst að margir munu taka þar sæti í fyrsta sinn eftir þingkosningar í lok október. Fréttablaðið ákvað því að rýna í kjör þingmanna til þess að finna út eftir hverju væri fyrir þá að slægjast.

Þeir sem ná kjöri til Alþingis geta vænst launa á bilinu frá tæpum átta hundruð þúsund krónum til tæplega 1.500 þúsund króna. Þetta kemur fram í launatöflum á vef kjararáðs. Þingmaður sem ekki gegnir varaformennsku eða formennsku í nefnd hefur 762.940 krónur í þingfararkaup. Sé hann 2. varaformaður í einhverri fastanefnd Alþingis hækka launin upp í 801 þúsund krónur og 839 þúsund ef hann er annar varaformaður í einhverri nefnd. Formenn þingnefnda og varaforsetar Alþingis fá greiddar 877 þúsund krónur og formenn þingflokka fá sömu upphæð. Formenn stjórnmálaflokkanna fá svo liðlega 1,1 milljón króna. Forseti Alþingis hefur svo 1,37 milljónir í laun á mánuði og forsætisráðherra er með 1,49 milljónir.

Laun þingmanna og ráðherra
Umræðan um laun þingmanna er jafnan viðkvæm og af þeirri ástæðu hefur sú leið verið farin að kjararáð úrskurði um launin í stað þess að þau séu ákveðin með lögum af Alþingi. Einstaka þingmenn hafa aftur á móti tjáð sig opinskátt um kjör sín. Þeirra á meðal er Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. „Ég er þeirrar skoðunar að laun þingmanna séu of lág. Ég get tekið sem dæmi bara mín laun. Ég er á strípuðum launum sem þingmaður Reykjavíkur, ekki með neinar útgreiðslur, og ég fæ útborgað 500 þúsund og eitthvað á mánuði eftir skatt,“ sagði Karl í Sprengisandi á Bylgjunni. Auk þingfararkaupsins fá allir alþingismenn greiddar tæpar 84 þúsund krónur á mánuði í fastan ferðakostnað, sem ætlað er að standa undir ferðakostnaði innan kjördæmis. Þetta gerir það að verkum að enginn þingmaður er með undir 846 þúsund krónum í heildarlaun á mánuði.

Þingmenn kjördæma utan höfuðborgarsvæðisins fá að auki mánaðarlega greiddar 134 þúsund krónur í húsnæðis- og dvalarkostnað. Þingmaður, sem býr utan höfuðborgarsvæðis og fer milli heimilis og Alþingis daglega, á rétt á að fá endurgreiddar allar slíkar ferðir. Hann fær að auki greiddan þriðjung húsnæðis- og dvalarkostnaðar, eða tæplega 45 þúsund.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×