Innlent

Úrval íbúða sem kosta yfir hundrað milljónir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Asparhvarf 18 fæst á 149 milljónir - með hesthúsinu.
Asparhvarf 18 fæst á 149 milljónir - með hesthúsinu. Mynd/Visir.is fasteignir
Á fasteignavef Vísis voru í gær 35 íbúðir í jafnt einbýlis- og fjölbýlishúsum auglýstar til sölu fyrir meira en 100 milljónir króna.

Dýrasta eignin er glæný íbúð á tíundu hæð á Lindargötu 39. Tvær fasteignasölur bjóða íbúðina, önnur á 229 milljónir króna en hin á 211 milljónir. Íbúðin er 256 fermetrar með 109 fermetra þakgarði. „Mikið útsýni til sjávar og yfir Reykjavík og nágrenni,“ segir í auglýsingu fasteignasölunnar Stakfells.

Talsvert er einmitt af íbúðum í nýjum eða nýlegum fjölbýlishúsum meðal dýrustu eignanna. Af áðurnefndum 35 eignum eru fimmtán í fjölbýlishúsum, nítján í einbýlishúsum og eitt raðhús er á listanum.

Á Lindargötu 39 er íbúð sem kostar yfir 200 milljónir króna.Mynd/Visir.is fasteignir
Dýrasta einbýlishúsið stendur á sjávarlóðinni Skildinganesi 54. Það er 457 fermetrar og ásett verð er 189 milljónir króna. Hús á Fjólugötu 19, sem er lítið eitt minna, eða 421 fermetri, er til sölu fyrir 180 milljónir. Á Selbraut 1 á Seltjarnarnesi er 402 fermetra einbýlishús til sölu á 175 milljónir króna.

Eina raðhúsið á listanum er í boði á 110 milljónir króna. Það er húsið Bakkavör 2 á Seltjarnarnesi. Það er 278 fermetrar að flatarmáli.

Nokkuð er af eignum í nýjum hverfum. Í Kópavogi er til dæmis húsið Asparhvarf 16 á 149 milljónir. Eignin er samtals 501 fermetri. Inni í þeirri tölu er 60 fermetra hesthús.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Nokkrar íbúðanna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×