Innlent

Sjöhundruð manns hjóluðu í Tour of Reykjavík

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Um sjö hundruð manns tóku þátt í hjólareiðaviðburðinum Tour of Reykjavík sem fram fór í dag. Töluverðar hindranir voru á umferð víða í borginni vegna keppninnar.

Boðið var upp á fjölbreyttar hjólaleiðir en keppnin sjálf var haldinn í Laugardalnum. Ýmist var hjólað alla leið að Þingvallavatni eða styttri hringi í Laugardal og miðborginni. Vegalengdirnar sem boðið var upp á voru 13 kílómetrar, 40 kílómetrar og 110 kílómetrar fyrir þá allra hörðustu.

„Þetta hefur gengið mjög vel. Við byrjuðum klukkan 8:30 með 40 kílómetra keppnina og í kjölfarið með 110 kílómetra keppnina sem er aðal keppnin,“ segir Kjartan Freyr Ásmundsson, verkefnastjóri Tour of Reykjavík. 

Minniháttar slys

Almennt gékk keppnin mjög vel þrátt fyrir minniháttar slys.

„Einn þekktur keppandi sem er stekastur í 110 kílómetrakeppninni datt á hringtorgi en hélt svo áfram. Vonandi nær hann þeim aftur,“ segir Kjartan.  

Arna Sigríður Albertsdóttir var ein þeirra sem tók þátt en hún hlaut varanlegan mænuskaða í skíðaslysi árið 2006. Hún hjólaði 40 km á handahjóli. „Ég er rosalega glöð að þetta mót sé til því það hentar mér rosalega vel. Það eru ekki mörg hjólamót sem ég get farið á,“ segir Arna.  

Það voru Inga María Ottósdóttir og Guðmundur Sveinsson sem unnu 40 kílómetra keppnina. Þetta var þrælskemmtilegt og vel að þessu staðið og skemmtileg braut,“ segir Guðmundur.

„Þetta gékk vonum framar. Það var reyndar afar blautt og ég hefði viljað gera þetta í þurru. Það var gaman að  hjóla um göturnar án þess að hafa miklar áhyggjur,“ segir Inga María.  

Þá var samkeppnin hörð í 110 kílómetra vegalengdinni en þar sigruðu Tobias Mörck frá Danmörku og Erla Sigurlaug Sigurðardóttir úr félginu Tindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×