Samkvæmt heimildum SkySports eru forráðamenn Newcastle ekki hættir í þessum félagsskiptaglugga en félagið lagði fram tilboð í Saido Berahino, leikmann West Brom og Seydou Doumbia, leikmann Roma.
Leikmenn Newcastle hafa átt í erfiðleikum fyrir framan markið á þessu tímabili en liðið hefur aðeins skorað 25 mörk í 23 leikjum. Hafa aðeins fimm lið í ensku úrvalsdeildinni skorað færri mörk.
Áætlað er að Doumbia sem er frá Fílabeinsströndinni gangist undir læknisskoðun í dag og að hann komi á láni frá Roma en hann hefur eytt undanförnum sex mánuðum á láni hjá CSKA Moskvu.
Varð hann tvisvar markahæsti leikmaður rússnesku deildarinnar sem leikmaður CSKA Moskvu áður en hann gekk til liðs við Roma en honum gekk illa að fóta sig í höfuðborg Ítalíu.
Þá kemur einnig fram að Newcastle hafi lagt fram tilboð upp á 21 milljón punda í Saido Berahino, leikmann West Bromwich Albion.
Berahino hefur verið út í kuldanum hjá West Brom eftir að hafa krafist þess að fara frá félaginu síðasta sumar en hann hefur verið varaskeifa það sem af er á þessu tímabili en minnti á sig með tveimur mörkum gegn Peterborough í gær.
Newcastle lagði fram tilboð í Berahino | Doumbia í læknisskoðun
Kristinn Páll Teitsson skrifar
