Innlent

Rannsaka skjálftavirkni við Húsmúla

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Markmiðið er að finna út hvort skjálftarnir tengist niðurdælingu vinnsluvatns frá Hellisheiðarvirkjun.
Markmiðið er að finna út hvort skjálftarnir tengist niðurdælingu vinnsluvatns frá Hellisheiðarvirkjun. Vísir/Vilhelm
Sérfræðingar Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar fara nú yfir skjálftavirkni helgarinnar við Húsmúla á Hengilssvæðinu. Sérfræðingar á Veðurstofunni og í vísindasamfélaginu koma einnig að greiningunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Markmiðið með greiningunni er að komast að því hvort að skjálftarnir tengist niðurdælingu vinnsluvatns frá Hellisheiðarvirkjun. Breytingar á skipulagi niðurdælingar geta orsakað svokallaða gikkskjálfta. Engar breytingar hafa hins vegar verið gerðar á niðurdælingunni upp á síðkastið og kallar hrinan því á ítarlega greiningu allra gagna.

Niðurdæling vatns hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar að draga úr umhverfisáhrifum á yfirborði, með því að vinnsluvatnið er ekki losað þar. Hins vegar eflir niðurdælingin sjálfbærni nýtingu jarðhitaauðlindarinnar þegar vinnsluvatni er skilað aftur niður í jarðlög þar sem það hitnar á ný.

Vatnið getur virkað eins og smurning

Í tilkynningu Orkuveitunnar kemur fram að við borun á jarðhitasvæðum sé leitast við að finna lekar jarðmyndanir eins og sprungur og misgengi. Sé spenna í sprungunum sem dælt er niður í getur vatnið virkað líkt og smurning þannig að spennan losnar með skjálftum í nánasta umhverfi við niðurdælinguna. Slíkir skjálftar eru kallaðir gikkskjálftar og eru oftast það smáir að þeir finnast ekki.

Frá því að Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun árið 2006 hefur vinnsluvatni frá virkjuninni verið dælt niður í jarðhitageymi. Dælt er niður á tveimur stöðum, við Gráuhnúka og Húsmúla. Um 700-800 lítrum er dælt niður á sekúndu.

Árið 2011 urðu gikkskjálftar við Húsmúla, en þá hafði vatnið virkað eins og smurning og losað um spennu í jarðlögunum. Í kjölfarið var tekið upp verkleg um að forðast snöggar breytingar á högun niðurdælingar og að láta almenning og yfirvöld vita fyrir fram þegar breytingar væru gerðar á niðurdælingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×