Innlent

Formaður félags leikskólakennara: Engin lausn að fá lífeyrisþega á leikskólana

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Í síðustu viku kynnti borgarstjórn Reykjavíkur tíu liða aðgerðaráætlun til að mæta rekstrarvanda skólastarfsins í Reykjavíkurborg. Samhliða kynningunni sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, að finna þyrfti nýjar leiðir til að mæta mönnunarvanda leikskólanna. Í því samhengi viðraði hann þá hugmynd að fá liðsinni lífeyrisþega til að starfa á leikskólum.

Sjá: Borgarstjóri vill virkja lífeyrisþega til hlutastarfa á leikskólum

Haraldur Freyr Gíslason, formaður félags leikskólakennara, segir þá hugmynd ekki vel til þess fallna að leysa mönnunarvanda leikskólanna.

„Stóra myndin í þessu vandamáli er þessi: Það vantar um 1300 leikskólakennara á landsvísu til að uppfylla lög 87 frá 2007 um menntun og ráðningu kennara,“ segir Haraldur.

Haraldur Freyr segir að um 1300 leikskólakennara vanti til starfa til að uppfylla skilyrði um menntun og ráðningu leikskólakennara.mynd/vilhelm
„Þar er kveðið á um að tveir þriðju hluti þeirra sem sinna uppeldi og kennslu þurfi að hafa leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi og það munu engar skyndilausnir leysa þann vanda. Lausnin að mínu mati snýst um þrjá hluti. Laun starfskjör og vinnuöryggi. Ég hef hinsvegar ekkert á móti því að eldri uppeldismenntaðir einstaklingar séu ráðnir tímabundið inn á leikskólanna. En það er hins vegar engin lausn til frambúðar,“ segir hann.

Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjóri á Rofaborg segir brýnt að taka á vandanum og tekur í sama streng og Haraldur.

„Án þess að ég geri lítið úr eldri borgurum eða að þau geti innt af hendi vinnuframlag þá teljum við að þetta sé ekki leiðin til að mæta mönnunarvanda leikskólanna,“ segir hún.

„Fyrst og fremst þarf að hækka laun leikskólakennara,“ segir hún. „Það þarf að gera laun og starfsaðstæður leikskólakennara samkeppnishæft til að leikskólakennarar vilji koma aftur inn í leikskólanna til að vinna. Síðan þarf að huga að því til framtíðar að mennta fleiri leikskólakennara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×