Innlent

Borgarstjóri vill virkja lífeyrisþega til hlutastarfa á leikskólum

Heimir Már Pétursson skrifar
Grunn- og leikskólum Reykjavíkur verður ekki gert að færa tap frá síðasta ári yfir á þetta ár og framlög til skólanna verður aukið um hundruð milljóna á þessu ári, samkvæmt aðgerðaáætlun borgarinnar. Borgarstjóri vill kanna að fá eldri borgara til kennslu í leikskólum til að vinna á mikilli manneklu.

Sex hundruð og sjötíu milljóna hagræðingarkrafa var sett á skóla- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar á þessu ári. En nú hefur Reykjavíkurborg ákveðið að setja 920 milljónir króna í þennan málaflokk, sem er hluti af tíu liða aðgerðaáætlun borgarinnar í skólamálum.

Borgarstjóri og aðrir fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn kynntu áætlunina í dag. Meðal annars á að setja 679 milljónir króna í að fjármagna sérkennslu, langtímaveikindi starfsmanna og skólaakstur strax á þessu hausti.

Framlög til kaupa á námsgögnum hækka sömuleiðis í haust úr 1,8 milljarði króna í þrjá milljarða og 425 milljónir fara til að fjármagna inntöku barna sem fæddust í mars og apríl á síðasta ári inn  í leikskólana um næstu áramót. Fæðisgjald nemenda í leik og grunnskólum verður hækkað um 100 krónur í október sem fara beint í hráefniskaup en bæta á gæði máltíða í skólunum sem kvartað hefur verið undan.

„Í stuttu máli erum við að snúa vörn í sókn í skólamálum. Viljum með þessu tryggja skólunum okkar svigrúm til að vera áfram leiðandi sem góðar faglegar stofnanir sem búa börnin okkar vel undir framtíðina,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Ekki hefði verið hægt að ráðast í þessar aðgerðir nema vegna þess að aðhaldsaðgerðir borgarinnar hafi skilað árangri og auknar tekjur væru að valda viðsnúningi í rekstri borgarinnar.

Dagur segir unnið gegn manneklu í leikskólunum í samráði við félög leikskólakennara og foreldra. Þá hafi verið nefndur sá möguleiki að þeir sem komnir eru á eftirlaunaaldur en hafi unnið á leikskólum kæmu til hlutastarfa án þess að það drægist frá eftirlaunum.

„Þarna þarf kannski lagabreytingu. En ég held að allt samfélagið sé komið á þann stað varðandi eftirspurn eftir vinnuafli að við höfum ekki efni á að ýta einhverjum svona hugmyndum út af borðinu. Ég held að við eigum að taka öllum hugmyndum fagnandi. En kjarni málsins er að tryggja gott og hæft starfsfólk inn á leikskólana og draga fram hvað þeir eru mikilvægir og góðir vinnustaðir,“ segir borgarstjóri.

Skúli Helgason formaður skóla- og tómstundasviðs segir aðgerðirnar sem kynntar voru í dag koma til móts við faglegar kröfur í skólakerfinu, til að mynda varðandi börn með sérþarfir. Þá muni miklu að skólunum verði ekki gert að færa tap frá fyrra ári yfir á þetta ár. Hins vegar fái sveitarfélögin ekki viðunandi fjármagn frá ríkinu til að standa undir lögbundnum skyldum vegna skóla og málefna fatlaðra.

„Það eru margir milljarðar sem sveitarfélögin telja með réttu að þau ættu að fá í viðbót frá ríkinu. Til að fjármagna ýmsa þjónustu sem sveitarfélögin hafa tekið yfir. Nú eða þá bætur fyrir til dæmis aðgerðir eins og skattleysi séreignarsparnaðar sem hafa snuðað sveitarfélögin um eina fimmtán milljarða,“ segir Skúli.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×