Fótbolti

Umboðsmaður svarar Suarez: Hann er lygari með sálræn vandamál

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Luis Suarez, leikmaður Barcelona, er kominn í deilur við Daniel Fonseca, fyrrum umboðsmann sinn.

Suarez var í sjónvarsviðtali í heimalandinu á miðvikudag þar sem hann var spurður út í þær sögusagnir að Fonseca hefði haldið eftir hagnaði af sölu Suarez til Groningen í Hollandi árið 2006. Suarez var þá að semja við sitt fyrsta félag í Evrópu, nítján ára.

„Það er eitt af þeim málum sem hafa valdið mér vonbrigðum með Daniel,“ sagði Suarez sem hélt því fram að Fonseca skuldi sér enn 200 þúsund dollara vegna sölunnar. „Svo sagði hann mér að ég myndi þéna 30 þúsund evrur á mánuði en ég fékk tíu þúsund.“

„Hann reyndi að bæta mér það upp þegar ég fór til Ajax [árið 2007] en þetta hefur alltaf setið í mér. Af því að hann var sjálfur knattspyrnumaður og veit hvað það er erfitt fyrir unga knattspyrnumenn að afla sér tekna.“

Ummælin voru borin undir Fonseca sem svaraði fullum hálsi. „Hann er lygari. Hann er samviskulaus. Hann er að ljúga. Hann á í sálrænum vandamálum og gengur til sálfræðings. Það er þó ekki að virka,“ sagði Fonseca.

„Ég þarf ekki á honum að halda og er frægur án hans. Ég ber ekki virðingu fyrir honum sem persónu og ég líð ekki vanvirðingu frá krakka sem þarf að nota puttana til að leggja saman tvær tölur. Hann veit ekki hvað fjórir plús fjórir eru mikið.“

Fonseca segir það alrangt að hann skuldi Suarez, þvert á móti skuldi Suarez honum 1,4 milljónir dollara. „Það er mér að þakka að hann þénaði sjö milljónir á fimm árum. Hann ætti að fagna mér. Hann ætti að hafa hugrekki til að senda lögfræðing á mig svo ég geti sagt öllum hvernig hann hlunnfór mig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×