Lögreglan á Suðaustur-Jótlandi greinir frá því í fréttatilkynningu í dag að 310 kíló af hreinu kókaíni hafi fundist í gámi á lóð fyrirtækis í Esbjerg. Hægt sé að blanda efninu þannig að úr verði 1.200 kíló af kókaíni, en götuvirði slíks magns er talið vera um 17 milljarðar króna.
Ljóst er að um stærsta fíkniefnafund í sögu landsins er að ræða.
Sex manns frá Hollandi og Belgíu eru nú í haldi lögreglu vegna málsins og hefur einn verið framseldur til Danmerkur. Húsleit hefur verið gerð á nokkrum stöðum.