Innlent

Brunavarnir á Kumbaravogi í ólestri og úrbótum ekki sinnt

Þorgeir Helgason skrifar
„Ég hef ekkert um þetta mál að segja ennþá,“ segir Guðni Kristjánsson, framkvæmdastjóri dvalar- og hjúkrunarheimilisins Kumbaravogs á Stokkseyri.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ákvað í fyrradag að loka hjúkrunarheimilinu í samræmi við tillögu Embættis landlæknis.

Í tilkynningu um lokun hjúkrunarheimilisins frá heilbrigðisráðherra segir að Embætti landlæknis telji fullreynt að knýja fram úrbætur. Öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu.

„Ástandið hefur lítið batnað frá því að við gerðum úttektina árið 2012. Rekstraraðilinn hefur borið fyrir sig við okkur að hann hafi ekki fengið nægilegt fjármagn til þess að bæta úr aðstöðunni,“ segir Anna Björg Aradóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis.

Þrisvar á síðustu árum hefur landlæknir gert úttekt á hjúkrunarheimilinu og gert alvarlegar athugasemdir sem snúa helst að aðbúnaði íbúa heimilisins, mönnun og fleira sem uppfyllir ekki kröfur embættisins um þjónustu hjúkrunarheimila.

Samkvæmt úttekt í fyrra er hlutfall faglærðra starfsmanna á Kumbaravogi við hjúkrun og umönnun aðeins 39,1 prósent. Landlæknir miðar hins vegar við að hlutfallið eigi að vera 77,87 prósent og að lágmarki 57,14 prósent til að tryggja öryggi þjónustunnar.

Töluverðar athugasemdir voru gerðar við húsnæði heimilisins í úttektinni 2012 en lítið sem ekkert var gert í þeim málum þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.

Viðhaldi húsnæðisins hafi ekki verið sinnt, það rigni og blási inn um óþétta glugga og íbúar hafi kvartað töluvert yfir kulda í húsnæðinu vegna þess að margir ofnar í húsinu séu bilaðir og ekki sé hirt um að lagfæra þá eða endurnýja.

Þá hangi pípu- og raflagnir niður úr loftum, húsgögn og innréttingar séu úr sér gengin, flest rúm íbúanna séu yfir þrjátíu ára gömul og rúmfatnaður hafi ekki verið endurnýjaður í mög ár.

Einnig kemur fram að lítið hafi verið unnið í gæða- og öryggismálum, meðal annars brunavörnum, frá því að úttektin frá árinu 2012 var unnin.

„Ef til þess kemur að rýma þarf húsið þá er illmögulegt að koma rúmum út um þær einu dyr sem eru nógu stórar, bæði er að hurð er biluð og ekki hægt að opna með góðu móti, auk þess sem það er nokkuð hár stallur niður á jörðina fyrir utan,“ segir í úttektinni.

Íbúar á Kumbaravogi eru 29 talsins og unnið er í samráði við þá og aðstandendur þeirra að því að finna þeim ný og viðunandi búsetu­úrræði. Áætlað er að síðustu íbúar Kumbaravogs flytji þaðan eigi síðar en 31. mars næstkomandi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×