Fótbolti

„Engir skandalar og ekkert fyllerí. Þetta djók landslið verður ekki djók lengur“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Umgjörðin í kringum íslenska landsliðið hefur tekið miklum breytingum og framförum undanfarin ár eftir að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tóku við liðinu. Þetta hafa leikmenn liðsins margsinnis talað um.

Á sama tíma hefur liðið sjálft orðið miklu betra en það náði hápunktinum í sumar þegar Ísland kom alla leið í átta liða úrslit EM í Frakklandi eftir frækinn sigur á Englandi í 16 liða úrslitum í Nice.

Strákarnir okkar tala opinskátt um breytingarnar undanfarin ár í myndinni Jökullinn logar sem er komin út á DVD. Myndband af því má sjá í spilaranum hér að ofan.

Sjá einnig:Aron um hvað Lars sagði við hann í Albaníu: „Hann bað mig vinsamlegast að læra af þessu“

„Þetta var mjög einfalt. Enska leiðin var svolítið farin í þessu. Reynt var að stilla upp sterkasta liðinu og svo bara út og spilað. Auðvitað var eitthvað skipulag en það var bara ekki nóg,“ segir Kári Árnason, miðvörður liðsins.

„Ég man að það var gert grín að því þegar maður fór eitthvað með landsliðinu því við vorum ekki líklegir til sigurs,“ segir hann en Alfreð Finbogason upplifði það sama í Hollandi.

Breytingarnar á landsliðinu skiluðu sigri á Englandi og sæti í átta liða úrslitum EM.vísir/getty
Engin markmið sett

„Þeir töluðu um það í klefanum hjá Heerenveen að það taldi ekki að spila fyrir Ísland. Þá væri maður í raun ekki landsliðsmaður,“ segir Alfreð.

Ragnar Sigurðsson talar mjög hreint út um jákvæðar breytingar á landsliðinu og umgjörðinni í kringum það og minnist þess með hvernig viðhorfi Heimir og Lars mættu til starfa.

Sjá einnig:Ragnar: „Ég fékk boltann og hugsaði að nú ætla ég að gera eitthvað sniðugt“

„Það sem þeir koma með er að þetta djók landslið verður ekki djók lengur. Það verða engir skandalar, ekkert fyllerí og ekkert bull. Núna erum við komnir hingað til að vinna og við ætlum að gera þetta landslið vinsælt. Ég man alltaf að heimir talaði um það,“ segir Ragnar en Gylfi Þór Sigurðsson er mest ánægður með hugarfarið.

„Mér fannst aldrei vera sett neitt markmið og þá var kannski óraunhæft að komast alla leið í lokakeppni. Ég veit ekki hvort það sé mismunandi viðhorf hjá okkur núna en við ætlum bara að vinna alla leiki sem við spilum. Jafntefli á útivelli þótti einhverntíma gott en við viljum vinna alla leiki,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.

Brot úr aukaefni myndarinnar Jökullinn logar má sjá hér að ofan. Jökullinn Logar er mynd Sölva Tryggvasonar um ferðalag strákanna okkar á EM í Frakklandi en hún er nú komin út á DVD með 120 mínútum af aukaefni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×