Sport

Ólympíunefndin stal fatnaði íþróttamannanna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Íþróttamaður frá Kenýa á Ólympíumóti fatlaðra.
Íþróttamaður frá Kenýa á Ólympíumóti fatlaðra. vísir/getty
Spillingin hjá Ólympíunefnd Kenýumanna er með hreinum ólíkindum og þar láta menn ekki duga að stela peningum.

Kenýa stóð sig mjög vel í frjálsíþróttakeppninni í Ríó og vann til þrettán verðlauna. Það finnst mörgum magnað miðað við hvernig staðið er að málum í landinu.

Nú hefur komið í ljós að bæði Ólympíunefnd Kenýa og starfsmenn frjálsíþróttasambandsins stálu peningum og fatnaði sem var ætlaður íþróttamönnunum.

Formaður Ólympíunefndar Kenýa hefur verið kærður fyrir að stela tæplega 30 milljónum króna og þrír aðrir úr nefndinni, þar af tveir varaformenn, hafa verið kærðir fyrir að stela kössum með fatnaði frá Nike.

Annar varaformaðurinn faldi sig undir rúmi heima hjá sér er hann var handtekinn. Inn í íbúðinni var allt fullt af kössum frá Nike með fatnaði sem hann hafði stolið.

Ólympíunefnd Kenýa fær 135 milljónir króna frá Nike á ári en ekki er haldið utan um það hvernig þessum peningum er eytt. Það er ekkert fært til bókar.

Þó svo Ólympíunefndin hafi úr nægum peningum að moða fór hún illa með íþróttamenn þjóðarinnar. Greiddi ekki fyrir flugfarseðla einhverra þeirra til að mynda.

Þetta kemur allt fram í skýrslu stjórnvalda sem hefur rannsakað Ólympíunefndina. Fleira á líklega eftir að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×