Innlent

Vilja Hringrás burt

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Mildi þótti að vindur var lítill og vindátt var hagstæð þegar eldur kom upp á athafnasvæði Hringrásar við Klettagarða í gærkvöldi. Brunar á athafnasvæðinu hafa verið óvenju tíðir frá árinu 2004 samanborið við sambærileg athafnasvæði annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynning barst til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins skömmu eftir klukkan tíu í gærkvöldi um að eldur væri laus á athafnasvæði Hringrásar við Klettagarða. Allt tiltækt slökkvilið var sent á vettvang þar sem umfang eldsins var óljós.

Þykkan svartan reyk lagði upp frá athafnasvæðinu þegar slökkvilið kom á vettvang en það vildi til happs að vindátt var hagstæð þannig að reykinn lagði ekki að íbúðabyggð á Laugarnesi.

Að minnsta kosti þrír brunar hafa orðið frá árinu 2004 á athafnasvæði Hringrásar. Íbúar á Laugarnesinu eru margir hverjir ósáttir við að starfsemi Hringrásar sé enn til staðar við Klettagarða. En mildi þótti í byrjun júlí árið 2011 að ekki hafi þurft að rýma íbúðabyggð þar á svæðinu þegar eldur var kveiktur í dekkjaúrgangi á athafnasvæðinu þannig að eitraðan reyk lagði af.

Þá, eins og í gær var vindátt hagstæð. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur miklar áhyggjur af því af aðstæður skapast aftur eins og í brununum árin 2004 og 2011 að rými þyrfti íbúðabyggð í Laugarneshverfi.

Framkvæmdastjóri Hringrásar hafnaði viðtali í dag en sendi frá sér tilkynningu þar sem hann meðal annars þakkar góður eldvörnum að ekki fór ver í gær. En eftir brunann árið 2004 réðst fyrirtækið í að hólfa svæðið betur niður til þess að auðvelda slökkvistarf og tryggja að eldur myndi ekki breiðast út.

Ekki er ljóst hvað olli eldinum í gærkvöldi en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar tildrög brunans.

Slökkviliðsmenn hafa farið það oft á svæðið vegna bruna að þeir þekkja aðstæður vel. Því gekk greiðlega að ráða við eldinn í gær þar sem slökkviliðsmenn vissu hvernig best var að berjast við hann.

„Auðvitað fer alltaf ónot um mann þegar maður verður var við eldsútkall í Hringrás,“ segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hann segir að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi haldið því fram frá 2004 að þessi starfsemi eigi að vera á öðrum stað.

„Þetta er auðvitað starfsemi sem verður að vera, en hún þarf þá líka að vera á einhverjum stað sem bæði rúmar starfsemina og væntanlega hennar þarfir. Jafnframt þá þýðir það að hún verði ekki áhættuvaldur í umhverfi sínu.“

Helsta ógnin við elda á athafnasvæði Hringrásar er í raun ekki eldurinn heldur reykurinn sem að stígur upp frá honum. Það eru íbúar í Laugarneshverfinu og forsvarsmenn fyrirtækja í kring ósáttir með.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×