Erlent

142 látnir í lestarslysinu á Indlandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sex fundust á lífi í rústunum.
Sex fundust á lífi í rústunum. Vísir/AFP
Tala látinna heldur áfram að hækka eftir lestarslys sem varð á Indlandi í gær. Eins og fram hefur komið átti slysið sér stað í Udar Pradesh héraðinu í norðurhluta Indlands rétt við landamæri Nepal þegar fjórtán vagnar lestarinnar fóru út af sporinu.

Í frétt Telegraph kemur fram að tala látinna sé komin uppí 142. Björgunarfólk á staðnum hefur unnið hörðum höndum að því að leita eftirlifenda en einungis sex hafa fundist á lífi. Ekki er talið að fleiri finnist á lífi en borin hafa verið kennsl á 110 manns. Aðstæður á slysstað eru erfiðar og eru lestarvagnarnir afar illa farnir.

Yfirvöld á Indlandi hafa gefið út lista yfir 169 manns sem voru í lestinni og hefur verið komið upp neyðarnúmeri fyrir aðstandendur farþega til að nálgast upplýsingar. Slysið í Udar Pradesh héraðinu er það mannskæðasta á Indlandi frá árinu 2010 og hafa vitni lýst því að það hafi verið líkt og jarðskjálfti þegar lestin fór út af sporunum.

Yfirvöld í Indlandi hafa heitið því að eyða meiri fjármunum í uppihald á lestarkerfinu en lestarslys eru afar algeng á Indlandi og má rekja 25 þúsund dauðsföll til þeirra á ári hverju. Lestarkerfi landsins er eitt það stærsta í heimi.

Enn er óupplýst hvernig slysið bar að höndum og er það enn til rannsóknar.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×