Innlent

„Við tökum það að sjálfsögðu alvarlega að nemendur vilji taka afstöðu með kennurum“

Birgir Olgeirsson skrifar
Tíundu bekkingar ætla að skrópa til stuðnings kennurum en skólastjóri segist ætla að finna aðgerðunum annan farveg.
Tíundu bekkingar ætla að skrópa til stuðnings kennurum en skólastjóri segist ætla að finna aðgerðunum annan farveg. Vísir/Anton Brink
Hópur grunnskólanemenda í Reykjavík hefur boðað til mótmæla vegna kjarabaráttu grunnskólakennara. Stofnað hefur verið til viðburðarsíðu á Facebook þar sem segir að krakkar í 10. bekk í Seljaskóla vilji gera hvað sem þeir geta til að hjálpa kennurunum sínum og muni því ekki mæta í skólann ef kennararnir fá ekki þau laun sem þeir eiga skilið fyrir kennsluna.

Ætla því einhverjir nemendur ekki að mæta í skólann á föstudag til að sýna fram á hve rangt það er að kennarar fái ekki þau laun sem þeir eiga skilið.

Stofnað var til viðburðarins eftir að fréttir voru sagðar af því að átján kennarar af 46 við Seljaskóla hefðu sagt upp störfum vegna óánægju með launakjör.

Sjá einnig: Grafalvarleg staða blasir við Seljaskóla

Magnúsi Þór Jónssyni, skólastjóra Seljaskóla, var ekki kunnugt um þessar boðuðu aðgerðir nemenda skólans til stuðnings kennara þegar Vísir hafði samband við hann. Eftir að hafa skoðað viðburðarsíðuna sagði hann ljóst að ekki væri aðeins um nemendur við Seljaskóla að ræða heldur einnig nemendur við aðra grunnskóla í Reykjavík.

Sagði Magnús Þór að starfsmenn Seljaskóla muni setjast yfir málið á morgun og leita hugsanlega til annarra skólastjórnenda þeirra skóla þar sem nemendur eru að tala um slíkar aðgerðir og reyna að finna þeim einhvern annan farveg en að sitja heima.

„Við tökum það að sjálfsögðu alvarlega að nemendur vilji taka afstöðu með kennurum en ætlum kannski að reyna að finna þeim annan farveg en þennan,“ segir Magnús um málið.


Tengdar fréttir

Skömminni skilað

Nýútskrifuð, með sjóðheitt prófskírteinið upp á vasann, réði ég mig sem kennara í þorpi úti á landi. Þar hitti ég konu sem tjáði mér, kinnroðalaust, að þeir sem leggðu fyrir sig kennslu væri fólkið sem væri ekki nógu gáfað til að læra eitthvað annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×