Innlent

Katrín upp­lýsti for­setann um gang stjórnar­myndunar­við­ræðna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. vísir/eyþór

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ræddi í dag við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og upplýsti hann um stöðu mála í stjórnarmyndunarviðræðum VG, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Pírata. Formenn flokkanna fimm funduðu í morgun og munu funda aftur klukkan 16 í dag.

Aðspurð hvort að Katrín sjái fyrir sér að eftir þann fund muni liggja fyrir hvort henni takist að mynda nýja ríkisstjórn eða ekki segir hún:

„Ég er ekki að setja neinar ákveðnar tímaáætlanir en það er auðvitað orðið tímabært eftir vinnu málefnahópanna að formenn flokkanna taki afstöðu í tilteknum málum þannig að það er það sem við ætlum að gera í dag. En ég ætla ekkert að loka fyrir það að það geti dregist eitthvað.“

Katrín segir að málin skýrist fyrir helgina og að formennirnir séu að taka á stóru málunum í dag en ítrekar að hún geti ekki sagt til um hvort að þeim takist að klára viðræðurnar í dag. Á meðal stóru málanna eru skattamálin, sjávarútvegurinn og stjórnarskráin en yfirlýsingar Katrínar um þrengri stöðu ríkissjóðs en áður var talið og hátekjuskatt hafa vakið nokkra athygli í gær og í dag, en undir orð hennar um þrengri stöðu ríkissjóðs hafa meðal annars þeir Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, og Benedikt Jóhannesson, tekið.

„Það eru allir flokkar hérna búnir að lofa miklum útgjöldum og fólk verður að sýna fram á hvernig það vill ná þeim fram. Það er nú ekki eins og stefna okkar VG í skattamálum hingað til hafi verið leyndarmál og það sem við erum að reyna að átta okkur á er hvar leiðir flokkanna liggja saman í því,“ segir Katrín og bendir á að skattamálin verði ekki slitin úr samhengi við verkefnin í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og hvað varðar kjör öryrkja og aldraðra.


Tengdar fréttir

Vilja setja hátekjuskatt á laun yfir 1,5 milljónir

Formaður VG segir að auknar álögur á sjávarútveg og ferðaþjónustu dugi ekki til að stoppa upp í gatið sem heilbrigðisþjónusta í landinu stendur frammi fyrir. Hugmyndir um hátekjuskatt snúist um að búa til réttlátara skattkerfi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.