Innlent

Íslenskur landnámshöfðingi reisti stærsta víkingaskálann

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stærsti víkingaskáli sem fundist hefur á Norðurlöndum er nú talinn hafa verið reistur af einum af landnámsmönnum Íslands, Ólafi tvennumbrúna, sem fram á síðustu ár hefur verið lítt þekktur. Þessi nýlega uppgötvun veldur því að Ólafur er orðinn stærsta nafnið í víkingatengdri ferðaþjónustu í Norður-Noregi. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Landnemarnir.

Á bænum Borg á Lófóten í Norður-Noregi er búið að endurreisa höfðingjasetur í þeirri mynd sem fornleifarannsóknir sýna að þar stóð um það leyti sem Ísland byggðist. Þær rannsóknir þykja styðja frásagnir Íslendingasagna um að efnaðir höfðingjar hafi verið í hópi landnámsmanna en skálinn var 83 metra langur. Þegar sagnfræðingar báru saman fornar ritheimildir og aldursgreiningar varð niðurstaðan sú að líklegast hefði Ólafur tvennumbrúni, sá sem nam Skeið, reist skálann.

Alf Ragnar Nielsen, prófessor í Bodø við háskólann í Nordland.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Þetta er stærsta hús frá víkingatímanum sem fundist hefur á gervöllum Norðurlöndum. En hann fór héðan og sigldi til Íslands í kringum árið 900 eða aðeins fyrr,“ segir Norðmaðurinn Alf Ragnar Nielssen, prófessor í sagnfræði. 

Norðmenn eru þarna búnir að byggja upp ferðaþjónustu, með sýningum, söngleikjum og siglingum víkingaskipa, allt í nafni Ólafs tvennumbrúna.

„Hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár og Hvítár og til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög," segir Landnámabók. 

Ólafur bjó að Ólafsvöllum á Skeiðum og þar segir Georg Kjartansson bóndi okkur að þeim hafi komið á óvart hversu Norðmenn gerðu mikið með Ólaf tvennumbrúna í Noregi.

Georg Kjartansson, bóndi á Ólafsvöllum á Skeiðum.Stöð 2/Björn Sigurðsson.
„Það koma hingað oft rútur og einstaklingar sem vilja fá að kíkja. Og ég hef líka hitt hann hér á hlaðinu í víkingaklæðum, óvopnaðan,“ segir bóndinn á Ólafsvöllum.

Nánar er fjallað um Ólaf tvennumbrúna í þættinum Landnemarnir á Stöð 2 í kvöld, klukkan 19.55, í opinni dagskrá.  Þar verður einnig fjallað um fleiri landsnámshöfðingja, eins og Ingimund gamla, Helga magra, Þórunni hyrnu og Hrollaug Rögnvaldsson.

Víkingurinn Ólafur tvennumbrúni kvikmyndaður í skipi sínu á Lófóten fyrir Landnemana á Stöð 2.Stöð2/Kristján Már Unnarsson.

Tengdar fréttir

Landnemarnir sigla áfram til Grænlands og Vínlands

Landnám Íslendinga á Grænlandi með siglingu Eiríks rauða árið 985 og dularfullt hvarf norrænu þjóðarinnar um 500 árum síðar er meðal þess fjallað verður um í þáttaröðinni "Landnemarnir“ sem heldur áfram á Stöð 2 í vetur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.