Íslenski boltinn

Arnar: Reikna frekar með því að vera áfram

Ingvi Þór Sæmundsson á Kópavogsvelli skrifar
Arnar og lærisveinar hans enduðu tímabilið í 6. sæti Pepsi-deildar karla.
Arnar og lærisveinar hans enduðu tímabilið í 6. sæti Pepsi-deildar karla. vísir/stefán
Breiðablik missti af Evrópusæti og féll alla leið niður í 6. sæti Pepsi-deildar karla er liðið tapaði 0-3 fyrir Fjölni á heimavelli í lokaumferðinni í dag.

Blikar voru sjálfum sér verstir í leiknum en þeir fóru illa með færin sín sem reyndist dýrkeypt á endanum.

„Fyrri hálfleikurinn var jafn. Við vorum ívið meira með boltann en sköpuðum ekki nógu hættuleg færi. Svo höfðum við algjöra yfirburði í seinni hálfleik og fengum 3-4 dauðafæri sem við nýttum ekki,“ sagði Arnar eftir leikinn í dag.

„0-0 er hættuleg staða. Fjölnir er með gott sóknarlið og við gleymdum okkur þegar þeir skoruðu fyrsta markið. Svo misstu menn hausinn, við vissum að við þyrftum að vinna og það skipti ekki máli hvort við töpuðum 1-0 eða 3-0. Þetta er blóðugt.“

Blikar enduðu sem áður sagði í 6. sæti sem Arnar viðurkennir að séu mikil vonbrigði.

„Við ætluðum að keppa á toppnum þannig að þetta eru klárlega mikil vonbrigði. En þegar menn nýta ekki færin sín erum við ekki nógu góðir,“ sagði þjálfarinn.

Arnar á eitt ár eftir af samningi sínum við Breiðablik og segir líklegra en ekki að hann verði áfram við stjórnvölinn hjá liðinu á næsta ári.

„Það verður að koma í ljós, ég á ár eftir að samningnum. Ég geri frekar ráð fyrir því að vera áfram,“ sagði Arnar að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.