Innlent

Heiðruðu minningu Gunnhildar í Kanada: „Hún var svo yndisleg og hreif alla“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá athöfninni um liðna helgi.
Frá athöfninni um liðna helgi. Mynd/Baldur Gylfason
Nafn knattspyrnukonunnar Gunnhildar Sifjar Gylfadóttur mun lifa lengi í minningu ættingja hennar og vina en ekki síður íbúa í smábænum Wolfville í Nova Scotia í Kanada. Óhætt er að segja að framtíðin hafi verið björt hjá Gunnhildi sem var að fara að spila sinn fyrsta landsleik þegar hún beið bana í bílslysi haustið 1987. 

Gunnhildur var við nám í Acadia háskólanum í Nova Scotia og spilaði með knattspyrnuliði skólans. Þá var hún konsertmeistari í ungliðasinfóníuhljómsveit Nova Scotia og margverðlaunuð fyrir frábæran námsárangur. Enginn leikmaður kvennaliðs háskólans hefur klæðst treyju númer níu eftir slysið. Um liðna helgi var svo sérstök athöfn þar sem treyja hennar var formlega tekin úr umferð Gunnhildi til heiðurs.

Rúrí Jónsdóttir móðir Gunnhildar, Baldur bróðir hennar og Yrsa systir hennar voru viðstödd athöfnina um helgina auk tveggja dætra Yrsu. Athöfnin fór fram á milli kvennaleiks og karlaleiks háskólaliða Acadia sem léku á heimavelli um helgina.

Gunnhildur raðaði inn mörkunum fyrir lið Acadia.
Fyrsti snjórinn

Baldur segir í samtali við Vísi að fjölskyldan hafi oft farið út til Wolfville en í ár fór minningarmót um Gunnhildi fyrir stúlkur fram í 29. skipti. Sviplegt andlát hennar varð nefnilega til þess að koma á fót minningarmóti um hana en því til viðbótar eru tveir styrktarstjóðir við Acadia háskólann í hennar nafni. Þeim síðari var komið á fót á dögunum.

Gunnhildur fæddist á Íslandi en fjölskyldan flutti fljótlega til Kanada. Hún bjó á Íslandi frá níu ára aldri og þangað til hún varð sautján ára. Þá var haldið aftur til Kanada þar sem hún nam við Acadia háskólann til dauðadags. Baldur bróðir hennar man vel eftir þeim degi. Fjölskyldan bjó í Halifax, í um klukkustundarakstursfjarlægð frá Wolfville. 

„Fyrsti snjórinn féll þann morguninn. Hún kom til okkar til að sækja kanadíska vegabréfið sitt,“ segir Baldur sem er fæddur einu og hálfu ári á eftir Gunnhildi. Framundan var leikur með kanadíska landsliðinu gegn Taívan. Leikurinn yrði fyrsti landsleikur Gunnhildar.

„Hún var svo glöð, að fara utan að spila sinn fyrsta landsleik daginn eftir.“

Áfallið var mikið fyrir fjölskylduna en einnig samfélagið.

„Þetta var rosaleg tragedía og ekki bara fyrir okkur. Fréttirnar voru undirlagðar af þessu. Þetta er lítill háskóli og virtur, svo var hún svo vinsæl.“ segir Baldur um stóru systur sína.

Gunnhildur eða „The Gun“ eins og hún var stundum kölluð á fótboltavellinum raðaði inn mörkum í treyju númer níu.
Hreif alla

Óhætt er að segja að í minningargreinum um Gunnhildi Sif hafi mörg falleg orð verið skrifuð.

„Hún var svo björt og svo falleg. Það voru allir skotnir í henni. Það gat verið óþolandi að eiga svona systur,“ segir Baldur á léttum nótum. Svo hafi hún líka verið frábær í fótbolta sem hafi orðið til þess að strákarnir á þeirra aldri bönkuðu upp á og spurðu eftir henni. 

„Hún var svo yndisleg og hreif alla.“

Þá var hún framúrskarandi fiðluleikari en systir Gunnhildar er Bryndís Halla Gylfadóttir, sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og Arngrunnur Ýr myndlistarmaður. Þá var Gylfi Baldursson, faðir þeirra systkina, mikill tónlistarunnandi og keppti meðal annars fyrir Íslands hönd í Kontrapunkti, spurningaþætti um klassíska tónlist þar sem Norðurlöndin öttu kappi.

Fremur en hæfni hennar til þess að spila á fiðlu minnast félagar hennar úr tónlistinni rólegrar og friðsamrar nærveru hennar. Þau lýsa henni sem andlegum krafti innan hljómsveitarinnar og minnast þeirra sterku áhrifa sem hún hafði á hina tónlistarmennina. Þetta er það sem var sérstakt við Gunnhildi. Þrátt fyrir áætlanir hennar og markmið voru það smáir hlutir, óáþreifanlegir hlutir eins og vinátta, sem skiptu hana mestumáli,“ sagði Laura Sanders, þjálfari knattspyrnuliðs Acadia, í ræðu við minningarathöfn sem haldin var í Acadia háskólanum skömmu eftir slysið.

Minningargrein Sanders í heild má lesa neðst í greininni.

Gunnhildur var mjög fær fiðluleikari auk þess að vera afburðanámsmaður.
Fjölmenn minningarathöfn

Baldur segir að athöfnin um helgina hafi verið alveg frábær. Ótrúlega margt fólk hafi verið á svæðinu miðað við hvað háskólinn er lítill. Búið sé að koma upp stóru skilti til minningar um Gunnhildi á leiðinni út á völlinn. 

Á skiltinu stendur Gunn Baldursson en ekki Gunnhildur Gylfadóttir. Ástæðuna segir Baldur vera þá að fjölskyldan hafi þurft að taka upp ættarnafn í Kanada og varð föðurnafn Gylfa fyrir valinu. Því varð Gunnhildur Baldursson. 

Gunn var svo stytting á Gunnhildur sem margir áttu erfitt með að segja. En líka vísun í hversu mikill markaskorari hún var. Þá var hún einfaldlega kölluð „The Gun“. 

Baldur segir að honum finnist það skrýtin hefð að taka númer úr umferð en Gunnhildur klæddist treyju númer níu. Hefðin er nokkuð algeng í Bandaríkjunum þar sem mörgum fremstu íþróttamönnum hefur verið sýndur þessi heiður. Má nefna Magic Johnson og Michael Jordan sem dæmi úr NBA-körfuboltanum.

Móðir Gunnhildar og systkinin Baldur og Yrsa.
Möguleg heimildarmynd

Vonir standa til að hægt veri að gera einhvers konar heimildarmynd um Gunnhildi. Árið 2007 fór Dúi Landmark utan með ungum stelpum úr Breiðabliki sem kepptu á mótinu. Hins vegar varð aldrei gerð nein mynd eins og til stóð.

„Þetta voru rosalega einlæg viðtöl,“ segir Baldur auk þess sem allar ungu stelpurnar í Breiðabliki hafi beðið spenntar eftir að sjá frá mótinu þar sem þær stóðu uppi sem sigurvegarar. 

Staðið hafi á svörum hjá Dúa varðandi myndefnið undanfarin ár en nú sé annað hljóð komið í strokkinn. Hann eigi von á því að geta nálgast myndefnið hjá Dúa og geta gert eitthvað skemmtilegt úr því.

Laura Sanders þjálfaði bæði körfubolta- og knattspyrnulið Acadia háskóla í mörg ár. Hún er í frægðarhöll skólans.
Minningarorð Lauru Sanders

„Fimmtudaginn 26. nóvember beið Gunnhildur Sif Baldursdóttir bana í hryggilegum árekstri. Afleiðing þess var sú að Acadia-háskólinn missti einn efnilegasta nemanda sinn, fótboltalið kvenna við skólann missti hæfileikaríkasta íþróttamann sinn og Acadia-symfónían missti konsertmeistara sinn. Heimurinn hefur misst skínandi dæmi þess hvaða merkingu það hefur að vera mannlegur og lifandi. En það sem líklegast er sorglegast af öllu er að fjölskylda hennar hefur misst elskulega systur og trygga dóttur.

Við öll sem þekktum Gunnhildi urðum fyrir miklu áfalli við lát hennar. Við spyrjum okkur hversvegna svona hlutir gerast. Við erum slegin af þeirri staðreynd að það eina sem við eigum eftir af Gunnhildi eru hughrif; minningin um það sem hún var; minningar þess sem hún afkastaði og þess sem hún voanðist til að afkasta; minningarum það hvernig hún snart líf vina sinna og fjölskyldu sinnar.

Gunnhildur var gáfuð og hæfileikarík manneskja. Hún var gædd miklum knattspyrnuhæfileikum sem urðu þess valdandi að leiðir okkar lágu fyrst saman. Hún hafði meðfædda getu til þess að skora mörk. Það var auðvelt að þjálfa hana og hún var mjög góður nemandi. Þeir sem þekktu hana sem tónlistarmann segja hið sama um næmleika hennar fyrir tónlist. Húnhafði sjaldgæfa náðargáfu til þessað tjá sig í gegnum tónlist. Sjálfsöryggi hennar og eðlislegu foringja hæfileikar voru sérkenni sem höfðu sterk áhrif á meðsystkini hennar í tónlistinni og íþróttunum.

Gunnhildur var mjög hæfileikarík og hún þekkti verðmæti þessara hæfileika. Hún lagði hart að sér og ætlaðist til mjög mikils af sjálfri sér. Afrek hennar bentu til þess að hér væri á ferð manneskja með helmingi fleiri ár að baki en raun var á. Hún var í hópi bestu háskólanemenda Kanada, með hæstu einkunn í öllum greinum alltaf og lagði hún stund á læknisfræði. Húnhafði unnið til ýmissa námsstyrkja vegna þessara framúrskarandi námsframvindu. Hún var konsertmeistari Acadia-symfóníunnar og meðlimur í ungliða-symfóníuhljóm sveit Nova Scotia og stefndi hátt sem listamaður. Afrek hennar og væntingar á íþróttabrautinni voru alveg jafn aðdáunarverð. Á hverju ári síðan hún hóf nám við Acadia hefur hún verið fyrirliði fótboltaliðsins. Hún hefur verið markahæst í deildinni á hverju ári og verið valin í úrvalsliðið. Á þessu ári var hún valin til þess að spila með A-stjörnu liðið Kanada og hún stefndi að þvíað keppa enn á ný fyrir Kanada sem liðsmaður kvennalandsliðsins í fótbolta. Þetta eru bara nokkur dæmi afreka hennar og hefði henni verið lífs auðið hefði hún án efa náð settum markmiðum.

Sterkustu hughrifin sem við er um skilin eftir með aftur á móti hafa lítið með markmið og áætlanir hennar að gera. Þau hafa lítið með afrek hennar og fjölmörgu hæfileika að gera. Sterkustu hughrifin sem Gunnhildur skildi eftir sig eru nefnilega þau hvernig hún snart líf hvers og eins okkar. Gunnhildur var stórkostleg manneskja og var góðmennska hennar einstök. Fremuren hæfni hennar til þess að skora mörk minnast félagar hennar úr liðinu þessa sérstaka anda sem fylgdi henni, opnum persónuleika hennar, hvernig hún horfði alltaf beint í augun á manni og hlýja brossins hennar. Allt þetta er ennþá hluti af okkur. Fremur en hæfni hennar til þess að spila á fiðlu minnast félagar hennar úr tónlistinni rólegrar og friðsamrar nærveru hennar. Þau lýsa henni sem andlegum krafti innan hljómsveitarinnar og minnast þeirra sterku áhrifa sem hún hafði á hina tónlistarmennina. Þetta er það sem var sérstakt við Gunnhildi. Þrátt fyrir áætlanir hennar og markmið voru það smáir hlutir, óáþreifanlegir hlutir eins og vinátta, sem skiptu hana mestumáli.

Það sem mestu skipti Gunnhildi, mun meir en nokkuð annað, var ást og samveran við fjölskyldu sína. Þau voru hennar bestu vinir. Hún talaði mikið um þau og notaði hvert tækifæri sem henni gafst til þessað fara heim og eyða tíma meðþeim. Hún var jafn stolt af þeim og þau hljóta að vera af henni.

Gunnhildur var einstök manneskja og hún var hluti af einstakri fjölskyldu. Þau okkar sem voru það heppin að hafa þekkt hana teljum það heiður að hafa fengið að eigaaðild að þessari sérstöku minningu. Þau okkar sem vorum náin Gunnhildi og myndum fjölskyldu hennar hér í Acadia verðum að veita hvort öðru styrk og hlýju til þess að fleyta okkur yfir þessa erfiðu tíma.

Við getum ekki lengur snert Gunnhildi. Samt getum við það á vissan hátt því minningarnar sem hún skildi eftir sig hjá hverjum og einum okkar eru hlutir sem erumjög sérstakir og munu alltaf fylgja okkur. Nú þegar hún er farin verðum við að varðveita þessar minningar og á þann hátt munum við öðlast frið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×