Innlent

Sveinbjörg stendur á milli stanganna hjá FC Crazy

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Bergþór og FC Sækó á æfingu.
Bergþór og FC Sækó á æfingu. vísir/Anton Brink
Á morgun mun fótboltaliðið FC Sækó etja kappi við lið borgarstjórnar, sem hefur fengið nafnið FC Crazy. FC Sækó er skipað notendum og starfsmönnum geð- og velferðarkerfisins og er um að ræða fjáröflunarleik þar sem liðið safnar fyrir utanlandsferð.

Bergþór Grétar Böðvarsson, þjálfari Sækó-liða, segir sigurinn þegar vera í höfn. „Við semjum reglurnar, það er bara svoleiðis. Það lið sem skorar fleiri mörk vinnur þannig ekki endilega leikinn,“ segir hann og treystir á að Gummi Ben, sem lýsir leiknum, líti sömu augum á málið.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarsviðs, munu verða í broddi fylkingar Crazy-liðsins. „Ég er ofsalega léleg í fótbolta,“ segir Ilmur en hún veit ekki enn hvaða stöðu hún mun spila. Fleiri borgarfulltrúar og starfsmenn sviðsins verða í liðinu. „Sveinbjörg verður til dæmis í marki og Sóley verður í klappliðinu. Hún treystir sér ekki í boltann. Annars er Stefán Eiríksson liðstjórinn,“ segir Ilmur en hann er sviðsstjóri velferðarsviðs. Stefán vill aftur á móti lítið gefa upp þegar hann er spurður um leynivopnið. „Ilmur er minn Figo. Leynivopnið er algjört leyni en gæti verið frá Vestmannaeyjum,“ segir hann dularfullur á svip.

Sveinbjörg Birna er til í slaginn enda vanur markmaður úr handboltanum. „Svo er ég reglulega í marki fyrir son minn í fimmta flokki. Þetta verður bara gaman,“ segir hún.

Leikurinn verður á gervigrasinu í Laugardalnum klukkan ellefu á morgun. Allir eru velkomnir, tekið er á móti frjálsum framlögum og hægt verður að kaupa sig inn í fótboltaliðin.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×