Innlent

Átök í Ikea: Kalla þurfti til öryggisverði vegna rifrildis um röðina inn í ævintýraskóginn Småland

Birgir Olgeirsson skrifar
Kalla þurfti til öryggisverði vegna málsins í Ikea í dag.
Kalla þurfti til öryggisverði vegna málsins í Ikea í dag. Vísir
Til átaka kom á milli tveggja para í Ikea í Garðabæ á fjórða tímanum í dag sem áttu upptök sín í rifrildi vegna raðarinnar í ævintýraskóginn Småland, leiksvæði barna í versluninni.

Til að komast inn á leiksvæðið þarf að taka númer en annað parið er sagt hafa gert það. Parið sem var með númer veitti því eftirtekt að í röðinni var kona með barn sem ekki hafði tekið númer. Parið á að hafa bent konunni á að hún yrði að taka númer en konunni á að hafa fundist það súr niðurstaða, að hafa beðið í tuttugu mínútur í röðinni en vera svo komin aftur fyrir aðra sem höfðu ekki beðið eins lengi en hins vegar tekið númer. Á starfsmaður einnig að hafa bent konunni á að hún yrði að taka númer.

Maður konunnar blandað sér þá í málið og á að hafa sagt þetta ekki vera ásættanlega niðurstöðu.

Parið sem tók númer fór því næst með barnið sitt inn á leiksvæðið á undan parinu sem var ekki var með númer. Parið sem var með númer gekk svo sína leið á meðan barnið þeirra skemmti sér í ævintýraskóginum en þegar það gekk fram hjá rúllustiganum við anddyri verslunarinnar hófust orðaskipti á milli paranna sem leiddu til þess að kalla þurfti til öryggisverði sem vísuðu pörunum úr Ikea.

Samkvæmt heimildum Vísis ætlar annar maðurinn, sem var með númer í röðinni, að kæra manninn sem ekki var með númer en maðurinn sakar hinn um að hafa veitt sér áverka með því að slá sig í bringuna. Ætlar maðurinn að fara á fund lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á mánudag með áverkavottorð og leggja fram kæru.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Ikea, segist hafa orðið vitni að rifrildi paranna og að kallað hafi verið á öryggisverði til róa ástandið þar sem þetta átti sér stað í anddyri verslunarinnar á háanna tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×