Enski boltinn

„Mourinho hefur ekki hugmynd um hvað er besta byrjunarlið United“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þrjú töp í röð.
Þrjú töp í röð. vísir/getty
„Allir héldu að José Mourinho myndi mæta á Old Trafford ásamt Zlatan Ibrahimovic og Paul Pogba og hann myndi bara veifa töfrasprota og þá væri allt komið í lag.“

Þetta segir Jamie Redknapp, sérfræðingur Sky Sports um ensku úrvalsdeildina, í vikulegum pistli sínum í Daily Mail. Eftir að vinna fyrstu þrjá leiki tímabilsins er United búið að tapa þremur leikjum í röð.

United fékk skell á útivelli gegn Watford í gær, 3-1, þar sem liðið spilaði skelfilega. Eftir að tapa Manchester-slagnum á heimavelli tapaði United svo gegn Feyenoord í Evrópudeildini í vikunni áður en kom að leiknum í gær.

„Eftir þriðja tapið í röð eru brestirnir farnir að sjást. Mourinho heldur áfram að breyta liðinu og það lítur út fyrir að hann hafi ekki hugmynd um hvað er besta byrjunarlið United,“ segir Redknapp.

„United vann fyrstu þrjá leiki tímabilsins með Juan Mata í byrjunarliðinu en það er ekki búið að innbyrða sigur eftir að Mourinho setti hann á bekkinn fyrir Manchester-slaginn. Sú ákvörðun virðist vera mistök.“

Fyrrverandi enski landsliðsmaðurinn er heldur ekki hrifinn af ummælum Mourinho um enska bakvörðinn Luke Shaw sem hann sagði ekki vera að læra af mistökum sínum. Shaw var frá næstum alla síðustu leiktíð vegna meiðsla eftir hryllilegt fótbrot.

„Auðvitað gerir hann mistök. Hann var frá í heilt ár. Svona pillur frá stjóranum sínum er það síðast sem hann þarf á að halda. Þetta er eitthvað sem þið sáuð Sir Alex Ferguson aldrei gera en er aftur á móti það sem allir voru hræddir um að myndi gerast með Mourinho,“ segir Jamie Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×