Enski boltinn

„Hvað er Rooney að gera?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, átti dapran leik í gær þegar liðið tapaði á útivelli gegn Watford, 3-1, í fimmtu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta var jafnframt þriðja tap United í röð í öllum keppnum.

Rooney er búinn að skora aðeins tvö mörk í síðustu 17 leikjum fyrir Manchester United en hann átti ekki skot á markið á gegn Watford í leiknum í gær.

Sérfræðingar um ensku úrvalsdeildina og fyrrverandi leikmenn keppast við að gagnrýna enska landsliðsfyrirliðann og nú hefur Phil Babb, fyrrverandi leikmaður Liverpool, bæst í þann hóp.

„Ef litið er á tölfræðina - og við vitum að Mourinho gerir það - spyr maður sig: „Hvað er Rooney að gera? Er hann að búa eitthvað til fyrir liðið? Er hann að drífa þetta lið áfram þó hann sé fyrirliði?“ spyr Babb.

„Það má halda því fram að svo sé ekki en við vitum að Rooney er góður leikmaður. Þar sem hann er fyrirliði liðs þar sem enginn að er að spila sérstaklega vel fær hann mestu gagnrýnina.“

„Ég get séð fram á að hann verði hvíldur mikið á þessari leiktíð og kannski bara strax í þessari viku. Mourinho þarf aðeins að fríska upp á liðið og gera breytingar,“ segir Phil Babb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×