Innlent

Forstjóri Kaupþings sannfærður um að bónusgreiðslurnar sé rétta leiðin

Birgir Olgeirsson skrifar
Paul Copley í Kastljósinu.
Paul Copley í Kastljósinu. RÚV
„Mér stendur alls ekki á sama um viðbrögðin. Ég er gestur Íslands, og síst vildi ég vera hér í óþökk eða baka mér og Kaupþing óvinsældir,“ sagði Paul Copley, forstjóri eignarhaldsfélagsins Kaupþings, í Kastljósinu í kvöld þegar hann var spurður út í gagnrýni sem kaupaukafyrirkomulag félagsins hefur fengið undanfarna daga.

Copley mætti í Kastljósið til að útskýra hlið Kaupþings á þessu máli. Hann sagðist hafa fengist við skipti á fyrirtækjum frá því hann var tvítugur og það sé hans reynsla að best sé að ljúka skiptum á gjaldþrotafyrirtækjum eins fljótt og auðið er. Það sé gert með bónusgreiðslum því þær hvetji starfsmenn slitabúa til að binda endi á störf sín eins fljótt og auðið er.

„Slitastjórnir hafa verið gagnrýndar fyrir að vera of lengi við störf og ég vil ljúka skiptunum á Kaupþingi eins fljótt og auðið er,“ sagði Copley.

Hann tók við starfi forstjóra eignarhaldsfélags Kaupþings í apríl síðastliðnum og hafi frá þeim tíma skoðað eignasafnið og reiknað út hve langan tíma það tæki að ljúka skiptum. Hann sá fram á að það myndi taka nokkur ár en hægt yrði að flýta því með kaupaukagreiðslum, þar sem starfsmenn slitabúa fá bónusa fyrir að binda endi á störf sín eins fljótt og auðið er.

„Það sem ég gerði og það sem stjórnin og hluthafar hafa sæst á, er hvatafyrirkomulag sem hvetur starfsfólkið til að binda enda á starf sitt fljótar en ella. En það er ekki óalgengt fyrirkomulag í mörgum starfsgreinum, þar sem reynt er að ljúka verkinu hraðar en annars tækist. Þess vegna var þessu komið á,“ sagði Copley.

Þóra Arnórsdóttir benti Copley á að Kaupþing væri ekki hvaða fyrirtæki sem er. Kaupþing hefði verið stærsti banki landsins sem varð alltof stór og féll á þjóðina sem hefur undanfarin átta ár reynt að vinna sig upp úr efnahagsþrengingunum sem því fylgdi. Því væri þetta kaupaukafyrirkomulag eins og rífa upp gamalt sár og þess vegna væru viðbrögðin við þessu svo vond og mikil þar sem forsætisráðherra landsins hefur kallað kaupaukafyrirkomulagið taktlaust og allt að því siðlaust og fjármálaráðherra líkt því við sjálftöku.

Copley sagði að honum stæði að sjálfsögðu ekki sama um viðbrögðin, hann væri gestur á Íslandi og vildi síst af öllu vera hér í óþökk eða baka sér eða Kaupþing óvinsældir. Hann féllst hins vegar ekki á að kaupaukafyrirkomulagið væri sjálftaka. Þetta væri gert til að ljúka skiptum á Kaupþingi sem allra fyrst og það væri öllum í hag.

„Að framlengja lífdaga Kaupþings væri ekki gott. Ég er sannfærður að þetta sé rétta leiðin, því fyrr sem þessu líkur því betra fyrir alla.“


Tengdar fréttir

Glitnir greiðir starfsmönnum sínum einnig bónusa

Eignarhaldsfélag allra föllnu bankanna greiða starfsmönnum sínum bónusa en á hluthafafundi Glitnis í mars á þessu ári var tillaga um bónusgreiðslur til starfsmanna samþykkt.

Indriði segir hægt að setja sérstakan skatt á ofurbónusana

Samþykktar hafa verið milljarða greiðslur til stjórnenda Kaupþings og gamla Landsbankans. Fyrrverandi ríkisskattstjóri segir engin sérákvæði um slíkar greiðslur í lögum en hægt væri að leggja sérstakan skatt á þær.

Kaupþing svarar fyrir sig vegna bónusgreiðslna

Eignarhaldsfélagið Kaupþing birti tilkynningu á vef sínum í morgun vegna bónusgreiðslna til starfsmanna sem samþykktar voru á aðalfundi félagsins á þriðjudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×