Viðskipti innlent

Glitnir greiðir starfsmönnum sínum einnig bónusa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þær upphæðir sem um ræði í tilviki starfsmanna Glitnis séu álíka háar og hjá Kaupþingi, en þar geta bónusgreiðslurnar numið allt að 1,5 milljörðum samanlagt.
Þær upphæðir sem um ræði í tilviki starfsmanna Glitnis séu álíka háar og hjá Kaupþingi, en þar geta bónusgreiðslurnar numið allt að 1,5 milljörðum samanlagt. vísir/heiða
Eignarhaldsfélag allra föllnu bankanna greiða starfsmönnum sínum bónusa en á hluthafafundi Glitnis í mars á þessu ári var tillaga um bónusgreiðslur til starfsmanna samþykkt. Tillögunni svipar til tillögu sem samþykkt var á hluthafafundi Kaupþings í gær.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag en þar segir að þær upphæðir sem um ræði í tilviki starfsmanna Glitnis séu álíka háar og hjá Kaupþingi, en þar geta bónusgreiðslurnar numið allt að 1,5 milljörðum samanlagt. Þannig fá þrír stjórnarmenn Glitnis hver um sig 25 prósent heildarupphæðar bónusanna en almennir starfsmenn sem er innan við tíu fá samtals 25 prósent af bónusgreiðslunum.

Mikið hefur verið fjallað um bónusgreiðslur til starfsmanna eignarhaldsfélaga gömlu bankanna en í gær var greint frá því að starfsmenn gamla Landsbankans eigi einnig von á háum greiðslum fyrir störf sín. Þannig fái Kolbeinn Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, 23 milljónir á ári í þóknun fyrir störf sín, en þá eru bónusgreiðslur ekki teknar með. Ekki er gert ráð fyrir að Kolbeinn vinni meira en 40 daga á ári fyrir félagið.

Mörgum blöskra þessar háu greiðslur til fárra starfsmanna félaganna en ekkert ólöglegt er hér á ferðinni þar sem ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, og hversu háar bónusgreiðslur má borga, eiga ekki við eignarhaldsfélög föllnu bankanna. Ýmsir vilja þó reyna að setja einhverjar hömlur á greiðslurnar, meðal annars þingmenn, sem töluðu fyrir því á þingi í gær að leggja himinháa skatta á bónusana.


Tengdar fréttir

Indriði segir hægt að setja sérstakan skatt á ofurbónusana

Samþykktar hafa verið milljarða greiðslur til stjórnenda Kaupþings og gamla Landsbankans. Fyrrverandi ríkisskattstjóri segir engin sérákvæði um slíkar greiðslur í lögum en hægt væri að leggja sérstakan skatt á þær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×