Innlent

Stefnt á að meira en 400 hjúkrunarrými verði til fyrir 2020

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Skrifað undir samkomulag um hjúkrunarrýmin.
Skrifað undir samkomulag um hjúkrunarrýmin. vísir/magnús hlynur
Stefnt er að því að fimmtíu rýma hjúkrunarheimili rísi á Selfossi á næstu árum. Fimmtán af fimmtíu eru viðbótarrými en hin 35 leysa eldri rými af hólmi. Gangi áætlanir eftir munu framkvæmdir hefjast að ári og unnt verður að taka heimilið í notkun fyrir mitt ár 2019.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, undirrituðu samkomulag þess efnis í gær.

Heildarkostnaður við hjúkrunarheimilið, án nauðsynlegs búnaðar, er áætlaður 1.365 milljónir króna. Stærstur hluti kostnaðarins, eða um fimm sjöttu, greiðist úr ríkissjóði og Framkvæmdasjóði aldraðra en Árborg kemur til með að greiða um 16 prósent. Kostnaður við kaup á nauðsynlegum búnaði skiptist í sömu hlutföllum. Starfshópur, skipaður fulltrúum ráðuneytis og sveitarfélags, mun vinna að áætlunargerð og hönnun hjúkraheimilsins. Að þeirri vinnu lokinni verður leitað eftir heimild til framkvæmda.

Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, frá því í ágúst kemur fram að áform séu um rúmlega 200 ný viðbótarrými á höfuð­borgarsvæðinu. Þá er að auki gert ráð fyrir sextíu hjúkrunarrýmum í Hafnarfirði sem komi til með að leysa eldri rými af hólmi.

Á landsbyggðinni er sem stendur unnið að viðbyggingum við hjúkrunarheimilin á Hvolsvelli og Hellu. Alls er þar um að ræða tuttugu rými. Á síðustu mánuðum hafa síðan risið ný hjúkrunarheimili á Ísafirði, Egilsstöðum og í Bolungarvík. Alls er þar um að ræða sjötíu rými, þrjátíu á fyrrnefndu stöðunum en tíu í Bolungarvík. Átján af rýmunum sjötíu eru viðbótarrými.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Hoppandi heilbrigðisráðherra á Hvolsvelli

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra þurfti að hoppa og taka vel á því á skóflunni þegar hann tók fyrstu skóflustunguna að nýrri viðbyggingu við dvalar- og hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×