Erlent

Segja stúlku sem hvarf fyrir 7 árum hafa verið myrta og líkinu fleygt fyrir krókódíla

Birgir Olgeirsson skrifar
Brittanee Drexel.
Brittanee Drexel.
Rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar á hvarfi sautján ára stúlku sem hvar árið 2009 hefur leitt í ljóst að stúlkunni var hópnauðgað áður en hún var myrt. Ódæðismennirnir eru síðan sagðir hafa fleygt líki hennar fyrir krókódíla.

Frá þessu greinir bandaríska dagblaðið The Post and Courier, staðarblað í borginni Charleston, þar sem vitnað er í fulltrúa innan bandarísku alríkislögreglunnar. Í greininni er sagt frá fanga sem heldur því fram að hafa séð stúlkuna, Brittanee Drexel, rétt áður en hún var myrt.

Haft er eftir alríkisfulltrúanum Ferrick Munoz að fanginn, Taquan Brown, sem afplánar 25 ára dóm fyrir manndráp, hafi sagst hafa séð Drexel nokkrum dögum eftir að lýst var eftir henni. Þegar lýst var eftir henni hafði hún síðast sést við fyrir utan BlueWater-dvalarstaðinn á Myrtle Beach.

Í greni glæpamanna

Brown sagðist hafa séð hana nokkrum dögum síðar í greni glæpamanna í bænum McClellanville í Suður-Karólínu. Þegar leitin að stúlkunni hafði staðið yfir í nokkurn tíma gaf lögreglan út að McClellanville væri bærinn þar sem farsími stúlkunnar hefði síðast gefið frá sér merki.

Greindi Brown frá því að stúlkunni hefði verið nauðgað ítrekað af hópi manna áður en þeir myrtu hana fyrir að reyna að flýja. Fulltrúi alríkislögreglunnar á síðan að hafa rætt við fjölda vitna sem sögðu líki hennar hafa verið komið fyrir í krókódílapytti.

Sagðist Brown hafa séð nokkra menn í húsinu þar sem stúlkunni var haldið. Þar á meðal Timothy Da´Shaun Taylor, sem var sextán ára gamall árið 2009. Hann hitti einnig föður TimothyShaun Taylor, en Brown telur hann hafa skotið stúlkuna fyrir að reyna að flýja.

Telur alríkislögregluna örvæntingafulla

Verjendur Da´Shaun, sem hefur hlotið dóm fyrir rán og er grunaður í öðrum málum, telja alríkislögregluna vera að setja hann undir pressu í von um að fá nýjar upplýsingar sem gætu varpað ljósi á hvarf Drexel.

Móðir hans, Joan Taylor, er á sama máli og segir alríkislögregluna vera orðna örvæntingarfulla yfir því að leysa ráðgátuna. Hún segir lögregluna notast við vitnisburð manns sem geri allt til að fá dóm sinn mildaðan.

Árið 2010 var Shaun Taylor einn þriggja manna sem grunaðir voru um að hafa numið 20 ára gamla konu á brott við Blue Water-dvalarstaðinn, en þar sást Drexel einmitt síðast. Taylor neitaði sök og var að lokum látinn laus. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×