Erlent

Um 6500 flóttamönnum bjargað undan ströndum Líbíu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Um 40 skip tóku þátt í aðgerðinni.
Um 40 skip tóku þátt í aðgerðinni. Vísir/AFP
Um 6500 flóttamönnum frá Eritreu og Sómalíu var bjargað undan ströndum Líbíu í stórri aðgerð af hálfu ítölsku strandgæslunnar og Frontex, Landamærastofnun Evrópu.

Um 40 skip tóku þátt í aðgerðinni og björguðu flóttamönnum sem safnast höfðu saman í um tuttugu báta og skip sem mörg hver geta vart talist haffær.

Þegar björgunarskip nálguðust bátana mátti greinilega heyra fagnaðarlæti en aðgerðin fór fram um 20 kílómetrum undan ströndum Líbíu.

Óstöðugleiki í Líbíu hefur gert það að verkum að ríkið er orðin ein helsta miðstöð þeirra sem sækjast eftir því að sækja sér betra líf með því að komast yfir Miðjarðarhafið yfir til Evrópu.

Þeir sem skipuleggja ferðirnar reyna oftar en ekki að koma eins mörgum og hægt er á hvern bát. Gerir það að verkum að ólíklegt er að hver bátur komist af sjálfsdáðum yfir til Ítalíu áður en illa fer. Þurfa því yfirvöld í Evrópu sem staðið hafa vaktina á Miðjarðarhafi undanfarin ár að grípa í taumana.

Yfir hundrað þúsund manns hafa yfirgefið Afríku það sem af er ári til þess að komast yfir til Ítalíu en flestir eru að flýja stríðsátök eða fátækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×