Innlent

Dýraníðingur gengur laus í Hveragerði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svo virðist sem einhver geri sér að leik að eitra fyrir köttum í Hveragerði.
Svo virðist sem einhver geri sér að leik að eitra fyrir köttum í Hveragerði. vísir/getty
Svo virðist sem dýraníðingur gangi laus í Hveragerði þar sem kettir hafa drepist undanfarið. Kattadauði í Hveragerði á sama tíma í fyrra vakti töluverða athygli en rannsókn lögreglu þá leiddi í ljós að allar líkur væru á því að kettir hefðu natrað í blátt fiskflak sem reyndist innihalda frostlög. 

Oddur Árnason hjá lögreglunni á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að aldrei hafi upplýst hver var að verki í málinu sem kom upp í fyrra. Nú liggir fyrir að einn köttur hafi drepist auk þess sem hann viti af öðrum kattardauða sem eigandanum fannst grunsamlegur en aðhafðist ekkert í. Fréttatíminn greindi fyrst frá nýuppkomnum kattardauða í bænum.

„Þessi mál eru sannarlega keimlík,“ segir Oddur í samtali við Vísi um kattadauðann í ár samanborið við í fyrra. Hann segist enn eiga eftir að fá krufningsskýrsluna og lesa sér formlega til um dauðaorsök. Þær upplýsingar sem hann hafi nú við að styðjast bendi þó til þess að um afar lík mál sé að ræða.

Köttunum líður djöfullega

Gunnar Þorkelsson, héraðsdýralæknir á Suðurlandi, sagði í samtali við Vísi í fyrra að eitrunin tæki mjög á kettina.

„Þetta fer í miðtaugakerfið á þeim og í heilann og þeim líður djöfullega. Við vonumst auðvitað til að sá sem gerði þetta náist svo það verði hægt að sækja hann til saka.“

Lögreglan á Suðurlandi hvetur þá sem mögulega hafa upplýsingar um málið til að hafa samband á sudurland@logreglan.is. Brot á dýraverndunarlögum geta varðað fangelsi allt að tveimur árum. 

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×