Innlent

Enginn verið yfirheyrður vegna kattadauða í Hveragerði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglan á Suðurlandi hefur þrjá kattadauða til rannsóknar. Íbúar telja þá vera fleiri auk þess sem hundur hafi drepist og fugladauði aukist.
Lögreglan á Suðurlandi hefur þrjá kattadauða til rannsóknar. Íbúar telja þá vera fleiri auk þess sem hundur hafi drepist og fugladauði aukist. Vísir/Getty
Lögreglan á Suðurlandi hefur engan grunaðan vegna grunsamlegs kattadauða í Hveragerði undanfarnar vikur. Íbúar í Hveragerði telja margir hverjir ljóst að um skipulagt kattadráp sé að ræða. Frostlögur fannst í bláu fiskflaki í bænum sem grunur leikur á um að kettirnir hafi nartað í með þeim afleiðingum að þeir drápust.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að hræ eins kattar, sem lögreglunni barst, hafi verið rannsakað. Ljóst sé að hann hafi drepist af fyrrnefndum orsökum. Gallinn sé hins vegar sá að ekki séu fleiri hræ til að rannsaka.

Íbúi í Hveragerði hét á dögunum 20 þúsund krónum til hvers þess sem gæti gefið upplýsingar um hver væri að verki. Sveinn Kristján staðfestir að enginn hafi verið yfirheyrður og enginn liggi undir grun. Rannsókn lögreglu er ekki lokið að því leyti að vonast er eftir frekari ábendingum, nýjum upplýsingum, til að byggja frekari rannsókn á.

Einnig kattadauði í Sandgerði

Auk kattadauðans í Hveragerði greindi RÚV frá því í sumar að óvenju margir kettir hefðu horfið eða hlotið dularfullan dauðdaga í Sandgerði. Íbúar í bænum telja að minnst tíu kettir hafi týnst eða drepist á um tveggja ára tímabili. Dýralæknir sagði í samtali við RÚV að frostlagareitrun væri ekki óalgeng eitrun meðal katta en yfirleitt kæmust þeir sjálfir í frostlög sem læki úr bílum. Afar lítið magn þurfi til að kettir þrói með sér alvarlega nýrnabilun.

„Þetta fer í miðtaugakerfið á þeim og í heilann og þeim líður djöfullega. Við vonumst auðvitað til að sá sem gerði þetta náist svo það verði hægt að sækja hann til saka,“ sagði Gunnar Þorkelsson, héraðsdýralæknir á Suðurlandi, í samtali við Vísi fyrir rúmum tveimur vikum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×