Innlent

Spyr ráðherra um uppbyggingu Heimskautsgerðisins á Raufarhöfn

Atli Ísleifsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, hefur beint fyrirspurn til iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hver afstaða ráðherra sé til áframhaldandi uppbyggingar Heimskautsgerðisins á Raufarhöfn.

Heimskautsgerðið er nú hálfbyggt en það rís á ás norðvestan við þorpið og hefur verið í byggingu frá árinu 2004.

Steingrímur spyr jafnframt hvort ráðherra, sem fer með málefni ferðamála, muni beita sér fyrir frekari fjárveitingum þannig að unnt verði að ljúka verkinu.

Þá spyr þingmaðurinn einnig hver sé afstaða ráðherra til uppbyggingar „nýrra“ áningarstaða fyrir ferðamenn og frekari dreifingu slíkra áfangastaða um landið en nú er.

Hugmyndina að Heimskautsgerðinu átti Erlingur Thoroddsen hótelstjóri og fékk hann Hauk Halldórsson listamann til að teikna gerðið. Steinblokkirnar mynda sólúr við nyrstu strendur Íslands og má segja að þær séu í anda Stonehenge í Englandi.

Textahöfundurinn landskunni Jónas Friðrik er meðal þeirra sem fylgt hafa verkefninu frá upphafi, en hann sagði frá því í viðtali við fréttastofu fyrr í sumar að um 70 til 80 milljónir króna vantaði upp á að klára verkið.

Þó verkinu sé langt frá því lokið þá er Heimskautsgerðið við Raufarhöfn orðið eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem leggja leið sína um Melrakkasléttu.

Sjá má innslag Kristján Más Unnarssonar fréttamanns frá í júlí í spilaranum að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×