Innlent

Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna innan staðarmarka Kópavogs

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kortið sýnir umrætt svæði.
Kortið sýnir umrætt svæði. mynd/óbyggðanefnd
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað öllum kröfum Reykjavíkurborgar þess efnis að afrétt Seltjarnarneshrepps hins forna verði skipað innan staðarmarka borgarinnar. Dómurinn var kveðinn upp síðastliðinn föstudag.

Landsvæðið sem málið snýst um var úrskurðað þjóðlenda af Óbyggðanefnd árið 2006 og sú niðurstaða staðfest af Hæstarétti árið 2009.

Af málsgögnum mátti ráða að meginhluti þess lands, sem nú tilheyrir Reykjavík, Seltjarnarnesi og Kópavogi, hafi upprunalega verið í Seltjarnarnesshreppi hinum forna. Árið 1947 var samþykkt að skipta hreppnum í tvö sveitarfélög og var það mat Óbyggðanefndar, sem úrskurðaði um málið árið 2014, að þá hafi áðurnefndum afrétt verið skipað innan staðarmarka Kópavogs.

Í málsástæðum Reykjavíkurborgar mátti meðal annars finna það sjónarmið að eðli málsins samkvæmt ætti lögsaga á afréttarsvæði sveitarfélaganna þriggja að vera hjá stærsta sveitarfélaginu. Einnig taldi borgin að ákvörðun félagsmálaráðherra, að skipta Seltjarnarneshrepp, hafi verið ólögmæt.

Í ljósi þess að Reykjavíkurborg hafði ekki uppi andmæli gegn umræddri ákvörðun félagsmálaráðuneytisins fyrr en langt var liðið frá ákvörðunni, rúmum sex áratugum síðar, var það mat dómsins að tómlæti borgarinnar myndi valda því að ekki væri unnt að líta til áðurgreindra sjónarmiða.

Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna er því innan staðarmarka Kópavogs. Borgin þarf að auki að greiða Kópavogsbæ 2,2 milljónir króna í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×