Erlent

Myrti fimmtíu manns á næturklúbbi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mikill viðbúnaður var við næturklúbbinn Pulse í Orlando eftir skotárásina í fyrrinótt.
Mikill viðbúnaður var við næturklúbbinn Pulse í Orlando eftir skotárásina í fyrrinótt. Vísir/EPA
Omar Saddiqui Mateen, 29 ára gamall starfsmaður öryggisfyrirtækisins G4S, féll fyrir skotum lögreglu í fyrrinótt eftir að hafa myrt um 50 manns á næturklúbbi hinsegin fólks í Orlando.

Árásin hófst um klukkan tvö eftir miðnætti og lauk um klukkan fimm að morgni þegar lögreglan réðst inn. Þessa þrjá tíma hafði Mateen notað til þess að skjóta meira en hundrað manns. Meira en fimmtíu voru særðir, flestir lífshættulega, þannig að búist var við að tala látinna myndi hækka.

Árásarmaðurinn, sem er bandarískur ríkisborgari af afgönskum uppruna, hringdi sjálfur í bandarísku neyðarlínuna og sagðist fylgja Daish-samtökunum, sem hafa haldið uppi ógnarstjórn á stórum svæðum í Sýrlandi og Írak og hvetja fólk um heim allan til að fremja hryðjuverk í sínu nafni.

Hann hefur tvisvar áður komið við sögu lögreglunnar. Jerry Demings, lögreglustjóri í Orange-sýslu, sagði lögregluna flokka árásina undir hryðjuverk.

Faðir árásarmannsins, Mir Seddique, segist samt viss um að árásin hafi ekki haft neitt með trúarbrögð að gera. Hann sagðist vera í áfalli og ekki hafa vitað hvað sonur hans hefði haft í hyggju.

„Við viljum biðjast afsökunar á þessu öllu,“ sagði hann í gær. „Við erum í áfalli eins og öll þjóðin.“

Seddique segir að sonur hans hafi fyllst reiði þegar hann sá tvo karlmenn kyssast. Árásin gæti hafa haft eitthvað með það að gera.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði þetta vera bæði hryðjuverk og hatursárás: „Við erum enn að átta okkur á staðreyndunum,“ sagði hann í ávarpi til þjóðarinnar. „Það sem er ljóst er að þetta var maður sem var fullur haturs.“

Hann minnti einnig, eins og hann hefur gert í hvert sinn sem hann hefur ávarpað þjóð sína í kjölfar mannskæðra skotárása, á það hve auðvelt það er fyrir ofbeldismenn að nálgast stórhættuleg skotvopn.

Leiðtogar og talsmenn múslima hafa eins og aðrir fordæmt þessi fjöldamorð, sem eru þau fjölmennustu í sögu Bandaríkjanna, að minnsta kosti síðustu öldina og rúmlega það.Mannskæðustu skotárásir í sögu Bandaríkjanna
Virginia Tech háskólinn í Blacksburg, Virginíu 16. apríl 2007

32 látnir

Seung-Hui Cho, 23 ára námsmaður

Sandy Hook grunnskólinn í Newtown, Connecticut 14. desember 2012

27 látnir

Adam Lanza, 20 ára

Killen í Texas 16. október 1991

23 látnir

George Hennard, 35 ára

San Ysidro, Kaliforníu 18. júlí 1984

21 látinn

James Huberty, 41 árs

Austin, Texas 1. ágúst 1966

18 látnir

Joseph Whitman, 25 ára

San Bernardino, Kaliforníu 2. desember 2015

14 látnir

Sayed Rizwan Farook, 28 ára, og Tashfeen Malik, 29 ára

Edmond, Oklahoma 20. ágúst 1986

14 látnir

Patrick Henry Sherrill, 44 ára

Fort Hood, Texas 5. nóvember 2009

13 látnir

Nidal Malik Hasan, 39 ára

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu 13. júní 2016
 Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.