Fótbolti

Markvörður Arsenal hetjan þegar Kólumbía fór í undanúrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Ospina og Dayro Moreno fagna eftir að sigur Kólumbíu var í höfn.
David Ospina og Dayro Moreno fagna eftir að sigur Kólumbíu var í höfn. vísir/getty
Kólumbía er komin í undanúrslit Copa América, Suður-Ameríkukeppninnar, í fyrsta sinn í 12 ár eftir sigur á Perú í vítaspyrnukeppni í nótt.

Í undanúrslitunum mæta Kólumbíumenn annað hvort Mexíkó eða Síle.

Leikurinn í New Jersey í nótt var heldur bragðdaufur og hægur enda dæmdi argentínski dómarinn Patricio Loustau 30 aukaspyrnur í leiknum.

James Rodríguez, fyrirliði Kólumbíu, komst næst því að skora þegar skot hans hafnaði í stönginni í fyrri hálfleik.

Staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma og því var farið beint í vítakeppni samkvæmt reglum Copa América.

Bæði lið skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnum sínum en í 3. umferðinni skoraði Dayro Moreno fyrir Kólumbíu á meðan að David Ospina, markvörður Arsenal, varði frá Miguel Trauco.

Sebastián Pérez skoraði svo fyrir Kólumbíu og kom liðinu í 4-2. Christian Cueva þurfti því að skora til að halda Perú inni í leiknum. Það tókst honum ekki, spyrnan fór yfir markið og Kólumbíumenn fögnuðu sæti í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×