Enski boltinn

Zlatan búinn að semja um kaup og kjör

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic hefur náð samkomulagi um kaup og kjör við Manchester United ef marka má frétt the Guardian.

Félagaskiptin velta nú á viðræðum sænska framherjans og José Mourinho, nýráðins knattspyrnustjóra United, um hlutverk hans í liðinu. Hinn 34 ára gamli Zlatan hefur víst lítinn áhuga á að vera varamaður á Old Trafford á næsta tímabili.

Zlatan mun væntanlega fá í kringum 220.000 pund í vikulaun en það á eftir að semja um þóknunia sem umboðsmaður Svíans, Mino Raiola, fær fyrir sinn þátt í félagaskiptunum.

Samkvæmt fréttinni hafði Tottenham Hotspur einnig áhuga á að fá Zlatan en United ku vera eina félagið á Englandi sem hann hefur áhuga á að semja við.

Zlatan spilaði undir stjórn Mourinho hjá Inter tímabilið 2008-09 og þeir hafa verið í góðu sambandi allar götur síðan.

Zlatan er nú með sænska landsliðinu sem undirbýr sig fyrir EM í Frakklandi. Svíar mæta Írum í fyrsta leik sínum á EM 13. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×