Enski boltinn

Lukaku á útleið hjá Everton: Hlusta á nýju eigendurna en ég vil vinna titla

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Romelu Lukaku ætlar sér stóra hluti.
Romelu Lukaku ætlar sér stóra hluti. vísir/getty
Romelu Lukaku er á útleið hjá Everton en þessi 23 ára gamli belgíski framherji vill komast til stærra liðs eftir þrjú tímabil í herbúðum Everton.

Þessi kraftmikli framherji skoraði 18 deildarmörk fyrir Everton á tímabilinu í 37 leikjum og 25 í heildina. Hann er á síðustu þremur árum búinn að skora 43 deildarmörk í 104 leikjum.

Everton hafnaði í ellefta sæti á síðustu leiktíð en sú frammistaða kostaði Roberto Martínez starfið á Goodison Park. Liðið hefur spilað undir væntingum undanfarin tvö ár eftir að ná flottum árangri á fyrsta tímabili spænska knattspyrnustjórans.

Nýr eigendahópur er tekinn við Everton og verður spýtt í lófana þar á bæ en það virðist skipta Lukaku litlu máli sem hefur verið orðaður við endurkomu til Chelsea en einnig Manchester United og Bayern München.

„Ég er á þeim stað á ferlinum þar sem ég verð að taka góða ákvörðun. Við erum komnir með nýja eigendur og fyrir kurteisissakir mun ég hlusta á hvað þeir hafa að segja. En ég hef mínar eigin hugmyndir. Ég vil vinna titla,“ segir Lukaku í viðtali við Daily Star.

„Ég átti gott tímabil en nú er kominn tími fyrir mig að bæta við ferilskrána. Þess vegna spila ég fótbolta. Ég fékk þetta titlahungur þegar ég var hjá Chelsea.“

„Fólk í Belgíu sér mig ekki spila fyrir Everton en ég er virtur af stuðningsmönnunum og sérfræðingum eins og Jamie Carragher, Graeme Souness og Thierry Henry,“ segir Romelu Lukaku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×