Fótbolti

Guðmundur þakkaði traustið með marki

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðmundur Þórarinsson var í fyrsta sinn í byrjunarliði Rosenborg í dag og hann þakkaði þjálfaranum traustið með einu af fjórum mörkum Rosenborg í öruggum 4-0 sigri á Viking.

Guðmundur og Hólmar Örn Eyjólfsson voru í byrjunarliði Rosenborg en Matthías Vilhjálmsson þurfti að sætta sig við sæti á bekknum. Björn Daníel Sverrison var í byrjunarliði Viking en honum tókst ekki að koma í veg fyrir tap Viking.

Hólmar Örn kom Rosenborg yfir með marki á upphafsmínútunum og Guðmundur bætti við þriðja marki Rosenborg í seinni hálfleik en Guðmundur var tekinn af velli skömmu síðar.

Í Álasund buðu heimamenn til veislu en Alesund vann 6-0 stórsigur á Tromsö í dag og komst Aron Elís Þrándarson á blað í leiknum.

Adam Örn Arnarson var í byrjunarliði Alesund og fékk það verkefni að stöðva Aron Sigurðarson í liði Tromsö en Aron fór af velli í hálfleik í stöðunni 0-2.

Alesund hélt áfram að bæta við mörkum í seinni hálfleik og náði Aron Elís að skora þegar hann skoraði sjötta mark Alesund á 82. mínútu.

Þá komust lærisveinar Rúnars Kristinssonar aftur á sigurbraut með 3-1 sigri á Odd á útivelli en Lilleström er eftir sigurinn í 6. sæti norsku deildarinnar.

Úrslit dagsins:

Alesund 6-0 Tromsö

Odd 1-3 Lilleström

Rosenborg 4-0 Viking




Fleiri fréttir

Sjá meira


×