Enski boltinn

Verðmæti Manchester United hefur hrunið á þessu tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjarvera Wayne Rooney er ekki að hjálpa til.
Fjarvera Wayne Rooney er ekki að hjálpa til. Vísir/Getty
Slakt gengi Manchester United á þessu tímabili kemur ekki aðeins fram í stigatöflu ensku úrvalsdeildarinnar heldur kristallast það einnig í reikningum félagsins.

Verðmæti Manchester United hefur þegar fallið um 400 milljónir punda á þessu tímabili eða um 70,6 milljarða íslenska króna.  Sky Sports segir frá.

Verðmæti hvers hlutar í Manchester United á verðbréfamarkaðnum í New York var 18,37 dollarar í byrjun tímabilsins en einum sólarhring eftir 3-0 tapið á móti Tottenham á sunnudaginn var það komið niður í 13,83 dollara á hvern hlut. Þetta gerir 25 prósenta lækkun.

Heildarverðmæti Manchester United við upphaf tímabilsins voru tveir milljarðar punda eða um 352 milljarðar íslenskra króna en núna er félagið "aðeins" virði 1,58 milljarða punda.

Þetta er lækkun upp á 412 milljónir punda og ef það er farið til 22. júlí 2015 þá hefur virði félagsins lækkað um 650 milljónir punda á þessum tæpu níu mánuðum. 650 milljónir punda eru meira en 114,6 milljarðar íslenskra króna.  

Manchester United datt út úr Meistaradeildinni í desember og það verður mjög erfitt fyrir liðið að tryggja sér Meistaradeildarsæti á lokaspretti ensku úrvalsdeildarinnar.

Ótrygg staða knattspyrnustjórans Louis van Gaal (samningur hans rennur út sumarið 2017) hjálpar ekki til ekki frekar en að missa af Meistaradeildinni í annað skiptið á þremur árum.

Manchester United er nú fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti þegar sex leikir eru eftir. Liðið er þó enn með í bikarnum og mætir West Ham í kvöld í endurteknum leik í átta liða úrslitunum. Það er því enn von um titil á Old Trafford á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×