Fótbolti

Besta knattspyrnukona heims 2014 hætt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kessler hefur leikið sinn síðasta leik á ferlinum.
Kessler hefur leikið sinn síðasta leik á ferlinum. vísir/getty
Þýska knattspyrnukonan Nadine Kessler hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna vegna hnémeiðsla, aðeins 28 ára að aldri.

Kessler, sem spilaði í stöðu miðjumanns, átti farsælan feril og var m.a. valin besta knattspyrnukona heims og Evrópu árið 2014.

„Það er erfitt að sætta sig við það að þurfa að hætta. Ég elskaði leikinn,“ sagði Kessler sem lék sinn síðasta leik á ferlinum þegar hún kom inn á sem varamaður í 3-0 sigri Wolfsburg á Bayer Leverkusen 21. september 2014.

Kessler hóf ferilinn hjá Saarbrücken en 2009 gekk hún til liðs við stórlið Turbine Potsdam. Kessler lék í tvö ár með Potsdam og vann á þeim tíma þýska meistaratitilinn í tvígang, auk Meistaradeildar Evrópu 2010.

Kessler færði sig um set til Wolfsburg 2011 og tímabilið 2012-13 vann liðið þrennuna svokölluðu; þýska meistaratitilinn, þýsku bikarkeppnina og Meistaradeildina. Árið eftir vann Wolfsburg svo þýsku deildina og Meistaradeildina aftur.

Kessler lék 29 landsleiki fyrir Þýskaland og skoraði 10 mörk. Hún varð Evrópumeistari með þýska landsliðinu 2013.

Cristiano Ronaldo og Nadine Kessler, bestu leikmenn heims 2014.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×