Innlent

Formaður Samfylkingarinnar telur umboðsmanni Alþingis hafa verið refsað vegna lekamálsins

Heimir Már Pétursson skrifar
Umboðsmaður Alþingis segir ekki tilefni til að hann hefji frumkvæðisathugun á aðkomu fyrrverandi forsætisráðherra að samningum við kröfuhafa föllnu bankanna. Hann minnir þingmenn á að hann hafi takmörkuð fjárráð til slíkra athugana en formaður Samfylkingarinnar segir að umboðsmanni hafi verið refsað vegna aðkomu hans að lekamálinu.

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis sagði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun að embætti hans hefði farið í forsætisráðneytið hinn 1. apríl til að kanna mögulega aðkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrrverandi forsætisráðherra að samningum við kröfuhafa föllnu bankanna. Engin gögn hefðu sýnt fram á að svo hefði verið. Hæfisreglur nái aðeins til stjórnvaldsaðgerða en ekki pólitískrar stefnumótunar, enda þingmenn kjörnir til að sinna henni og lúti þar einungis eigin samvisku.

„Ég tek að fram að ég hef ekki talið í ljósi þess sem ætla hefur mátt af fyrirliggjandi upplýsingum um aðkomu fyrrverandi forsætisráðherra að umræddum málum og lagalegri umgjörð þeirra, tilefni til að taka þetta mál til athugunar að eigin frumkvæði. Til viðbótar koma svo þau atriði sem ykkur eru kunnug um að það eru mjög takmarkaðir möguleikar umboðsmanns til að sinna frumkvæðisathugunum,“ sagði Tryggi á nefndarfundinum í morgun.

Vísaði umboðsmaður þarna til takmarkaðrar fjárveitingar Alþingis til slíkra athugana hans.

„Og það var mjög áberandi við gerð fjárlaga fyrir þetta ár að stjórnarmeirihlutinn lagði lykkju á leið sína til að refsa umboðsmanni fyrir góða framgöngu í lekamálinu. Þetta er hættumerki í íslensku samfélagi. Ég held að atburðir síðustu vikna eigi að sýna okkur mikilvægi þess að við höfum öflugar eftirlitsstofnanir og öfluga fjölmiðla sem tryggja það að við fáum að vitha hvað er á seiði í samfélaginu,“ segir Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sem sæti á í nefndinni.

Eitt af því sem umboðsmaður Alþingis vakti athygli á á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag er að siðareglur ráðherra hafi ekki verið settar með fullnægjandi hætti. Það væri Alþingis að herða þar á. Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra hefði sett ráðherrum sínum siðareglur, en í tíð núverandi ríkisstjórnar hefðu slíkar reglur verið samþykktar í ríkisstjórn sem væri ekki stjórnskipunarvald. Þetta hlyti að vera byggt á misskilningi sem þyrfti að bæta úr.

„Það kom líka fram í hans máli að vegna þess að ég hef lagt fram fyrirspurnir til fjármálaráðherra í fjölmörgum liðum um stjórnskipulag málsins og aðkomu forsætisráðherra að því og starfsmanna forsætisráðherrans, telur hann rétt að bíða niðurstöðu þeirra svara,“ segir Árni Páll Árnason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×