Enski boltinn

Newcastle bjargaði stigi í fallbaráttunni | Sjáðu mörkin

Sergio Agüero kom City á bragðið á 14. mínútu.
Sergio Agüero kom City á bragðið á 14. mínútu. vísir/getty
Manchester City er svo gott sem endanlega úr leik í titilbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar er liðið mátti sætta sig við 1-1 jafntefli við Newcastle á heimavelli.

Newcastle vann að sama skapi afar dýrmætt stig í fallbaráttu deildarinnar en liðið er næstneðst, nú með 29 stig og tveimur frá öruggu sæti þegar fjórar umferði eru eftir af tímabilinu.

Sergio Agüero skoraði mark City á fjórtándu mínútu en það var hans 22. mark á tímabilinu og er hann nú jafn Jamie Vardy sem næstmarkahæsti leikmaður tímabilsins, tveimur mörkum á eftir Harry Kane.

Þetta var jafnframt 100. úrvalsdeildarmark Argentínumannsins snjalla en endursýningar í sjónvarpi sýndu þó að hann var rangstæður þegar hann skallaði í mark Newcastle.

Vurnon Anita jafnaði svo metin fyrir Newcastle á 31. mínútu og þar við sat.

City komst nálægt því að endurheimta forystuna en Karl Darlow varði vel frá bæði Jesus Navas og Kevin de Bruyne.

En Newcastle fékk einnig tækifæri til að tryggja sér sigurinn undir lokin en Joe Hart, markvörður City, náði að sjá við Georginio Wijnaldum.

City er nú með 61 stig í þriðja sæti ensku deildarinnar, tólf stigum á eftir toppliði Leicester. Liðið á því lítinn sem engan möguleika á Englandsmeistaratitlinum úr þessu.

Sergio Agüero kom Manchester City yfir á 14. mínútu: Anita jafnaði metin fyrir Newcastle á 31. mínútu:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×