Fótbolti

Lögsækja bandaríska knattspyrnusambandið fyrir að borga strákunum miklu meira

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hope Solo fagnar HM-gullinu með liðsfélögum sínum síðasta sumar.
Hope Solo fagnar HM-gullinu með liðsfélögum sínum síðasta sumar. Vísir/Getty
Carli Lloyd, Becky Sauerbrunn, Alex Morgan, Megan Rapinoe og Hope Solo eru allt leikmenn heimsmeistaraliðs Bandaríkjanna í kvennafótbolta og þær eru allar í hópi þekktustu íþróttamanna Bandaríkjanna eftir sigur sinn á HM í Kanada á síðasta ári.

Þær fimm hafa nú hafið herför gegn launamisrétti milli kynjanna þegar kemur að bónusgreiðslum til leikmanna í landsliðum Bandaríkjanna í fótbolta.

Heimsmeistararnir fimm hafa nú lögsótt bandaríska knattspyrnusambandið og mun málsóknin vera lögð fyrir hjá sérstakri nefnd sem tekur fyrir launajafnrætti á vinnumarkaði í Bandaríkjunum, svokallaðri Equal Employment Opportunity Commission.

Karlarnir í bandaríska knattspyrnulandsliðinu fá fjórum sinnum meira en konurnar og það breytir engu þótt að þeir hafi aldrei unnið stórmót en bandarísku stelpurnar séu meðal þeirra sigursælustu í sögunni.  Niðurstaða nefndarinnar gæti verið söguleg í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna í bandarískum íþróttum.

„Tölurnar segja alla söguna," sagði markvörðurinn Hope Solo í yfirlýsingu frá leikmönnunum.  „Við erum bestar í heiminum, höfum unnið þrjá heimsmeistaratitla, fjögur Ólympíugull og leikmenn karlalandsliðsins fá meira fyrir að láta sjá sig en við fáum fyrir að vinna stóramót," sagði Hope ennfremur.

Meðal rökstuðningsins með kærunni er að landsliðskonurnar séu verðmætari en landsliðskarlarnir fyrir bandaríska knattspyrnusambandið eftir frábært gengi liðsins í gegnum tíðina.

Lögfræðingur landsliðskvennanna segir að í raun ættu þær að biðja um meira en karlarnir en fyrsta skrefið væri að þær fá greitt jafnmikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×