Fótbolti

Gleymdi tíu milljónum í leigubíl og missti landsliðssæti sitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Max Kruse í leik með Wolfsburg.
Max Kruse í leik með Wolfsburg. Vísir/Getty
Óhætt er að segja að Max Kruse, framherji Wolfsburg í þýsku úrvalsdeildinni, hafi ekki átt sjö dagana sæla.

Fyrir viku síðan komst Kruse í fréttirnar fyrir að gleyma pening sem hann hafði unnið í póker fyrr um kvöldið í leigubíl - litlar tíu milljónir króna.

Atvikið átti sér stað eftir stórt pókerkvöld í Berlín í október síðastliðnum en Kruse var einn af sigurvegurum kvöldsins. Gleðin reyndist þó skammvinn eftir að hann gleymdi upphæðinni í leigubíl.

Eftir að atvikið komst í fréttir í síðustu viku var Kruse sektaður um 25 þúsund evrur - jafnvirði 3,5 milljóna króna. Heildartap kappans því orðið tæpar 14 milljónir króna.

Í dag var svo greint frá því að Joachim Löw, landsliðsþjálfari, hafi tekið Kruse úr landsliðshópi sínum fyrir vináttulandsleikinn gegn Englandi í Berlín á laugardag.

„Ég talaði við Max um þær kröfur sem ég geri til leikmanna innan sem utan vallar. Hegðun hans undanfarnar vikur voru ófaglegar,“ sagði Löw í dag.

„Við þurfum leikmenn sem eru einbeittir að fótboltanum og skilja hvaða hlutverki þeir gegna sem fyrirmynd.“

Til að bæta gráu á svart fékk Kruse þá skipun frá Klaus Allofs, framkvæmdastjóra Wolfsburg, að hann ætti að minnka við neyslu sína á Nutella súkkulaðiálegginu.

„Markmið okkar er að styðja leikmenn svo að þeir geti staðið sig sem best. Max þarf að leiðrétta nokkra hluti,“ sagði Allofs.

Kruse hefur skorað sex mörk í 25 úrvalsdeildarleikjum í vetur og gefið sjö stoðsendingar þar að auki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×