Enski boltinn

O'Neill: Margt líkt með Leicester og gullaldarliði Forest

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/afp/getty
Martin O'Neill segir að Leicester City, topplið ensku úrvalsdeildarinnar, minni hann á meistaralið Nottingham Forest frá árinu 1978.

O'Neill þekkir vel til beggja félaga en hann lék með Forest á árunum 1971-81 og þjálfaði svo Leicester um fimm ára skeið (1995-2000).

Forest-liðið 1978 kom öllum á óvart með því að vinna Englandsmeistaratitilinn sem nýliðar. Knattspyrnustjóri liðsins var hinn goðsagnakenndi Brian Clough en hann átti síðan eftir að gera Forest að Evrópumeisturum tvö ár í röð.

Margir hafa líkt Leicester-ævintýrinu við uppgang Forest á 8. áratug síðustu aldar og O'Neill sér margt  sameiginlegt með þessum liðum.

„Þau eiga margt sameiginlegt,“ sagði O'Neill sem er í dag þjálfari írska landsliðsins.

„Það eru nokkrir leikmenn í Leicester sem svipar til leikmanna í Forest-liðinu. Ryiad Mahrez er mjög skapandi leikmaður, svolítið eins og John Robertson, og Jamie Vardy er eins og Tony Woodcock.“

O'Neill segir að það væri gríðarlegt afrek hjá Leicester að fara alla leið og vinna Englandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins.

„Það er ótrúlegt að í dag, þegar stærstu og ríkustu liðin ráða ríkjum, að Leicester geti unnið titilinn. Það yrði stórkostlegt afrek,“ sagði O'Neill sem gerði góða hluti með Leicester á sínum tíma og vann m.a. deildarbikarinn í tvígang.

„Það er rómantík í þessari sögu - fólk er að tala um þetta um alla Evrópu. Ég var á fundi hjá UEFA í Frakklandi fyrir skömmu og þar var fátt annað rætt. Þetta er frábær saga og ef þeir fara alla leið verður þetta saga aldarinnar.“

Leicester er með fimm stiga forskot á Tottenham á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar sjö umferðum er ólokið.


Tengdar fréttir

Áfram heldur sigurganga Leicester

Leicester rígheldur áfram í toppsætið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en þeir eru með átta stiga forskot á Tottenham sem á þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×