Fótbolti

Sara Björk fær Evrópumeistarana í heimsókn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk leikur sinn 31. Meistaradeildarleik í kvöld.
Sara Björk leikur sinn 31. Meistaradeildarleik í kvöld. vísir/getty
Fyrri leikirnir í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu kvenna í fótbolta fara fram í dag.

Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og stallna hennar í sænska meistaraliðinu Rosengård bíður erfitt verkefni en þær mæta Evrópumeisturum Frankfurt í kvöld. Leikurinn fer fram á Malmö IP, heimavelli Rosengård, og hefst klukkan 19:00. Liðin mætast svo öðru sinni í Þýskalandi eftir viku.

Rosengård átti nokkuð greiða leið inn í 8-liða úrslitin. Í 32-liða úrslitunum rúllaði liðið yfir PK-35 Vantaa frá Finnlandi, samanlagt 9-0. Í 16-liða úrslitunum skellti Rosengård svo ítalska liðinu AGSM Verona, samanlagt 8-2. Sara Björk skoraði í fyrri leiknum gegn Verona á útivelli.

Sara hefur alls leikið 30 leiki í Meistaradeildinni og skorað í þeim 12 mörk. Hún skoraði þrjú mörk í fimm leikjum fyrir Breiðablik og hefur gert níu mörk í 25 leikjum fyrir Rosengård.

Rosengård hefur unnið sænska meistaratitilinn undanfarin þrjú ár en keppni í sænsku deildinni í ár hefst í næsta mánuði. Í opnunarleiknum 16. apríl mætir Rosengård Kristianstad sem Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar.

Mótherjar Rosengård í kvöld, Frankfurt, hafa unnið Meistaradeildina fjórum sinnum, oftast allra liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×