Fótbolti

Xavi: Riyad Mahrez er nógu góður til að spila með Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Riyad Mahrez.
Riyad Mahrez. Vísir/Getty
Xavi, fyrrum leikmaður Barcelona og einn sigursælasti knattspyrnumaður allra tíma, hefur miklar mætur á Leicester-leikmanninum Riyad Mahrez.

Alsíringurinn Riyad Mahrez á mikinn þátt í því að Leicester City er óvænt með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar aðeins sjö umferðir eru eftir.

Hinn 25 ára gamli Riyad Mahrez hefur skorað 16 mörk og gefið 10 stoðsendingar í 30 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Xavi spilar nú með liði Al Sadd í Katar en hann viðurkennir að hann hafði ekki heyrt af Riyad Mahrez fyrr en á þessu tímabili.

„Hann er mjög góður leikmaður," sagði Xavi í viðtali við Al Araby Al Jadeed í Katar.

„Ég tók allt í einu eftir honum á þessu tímabili því ég viss ekki af honum fyrir þetta tímabili. Hann hefur slegið í gegn á þessu tímabili," sagði Xavi.

„Hann er búinn að koma sér í hóp með bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar og hefur spilað einstaklega vel. Þökk sé því sem hann hefur gert fyrir sitt félag getur hann nú komist að hjá stórum klúbbi í Evrópu," sagði Xavi og hann var í framhaldinu spurður af því hvort hann gæti þar með spilað fyrir Barcelona.

„Já, af hverju ekki? Hann getur spilað með Barcelona í framtíðinni. Hann er hæfileikaríkur en ég ræð nú engu lengur um það hvort hann komi til Barcelona eða ekki," sagði Xavi.

Xavi spilaði með Barcelona frá 1998 til 2015 og vann alls 25 titla með félaginu. Hann vann einnig þrjá stóra titla með spænska landsliðinu á þessum tíma.

Xavi.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×